Enski boltinn

Carragher segist hafa haft rangt fyrir sér varðandi Martínez

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lisandro Martínez í leik Manchester United og Leeds United í gær. Hann fór 2-2.
Lisandro Martínez í leik Manchester United og Leeds United í gær. Hann fór 2-2. getty/Michael Regan

Jamie Carragher viðurkennir að hafa haft rangt fyrir sér varðandi Lisandro Martínez, argentínska heimsmeistarann hjá Manchester United.

Martínez kom til United frá Ajax fyrir tímabilið. Margir höfðu áhyggjur af því að hinn frekar lágvaxni Argentínumaður, sem telur 1,75 metra, myndi eiga erfitt uppdráttar í enska boltanum og Carragher var þar á meðal. Carragher segist hafa orðið á í messunni með Martínez.

„Lisandro Martínez hefur verið frábær. Að vera svona lágvaxinn og spila sem miðvörður, þá þarftu augljóslega að vera sérstakur leikmaður,“ sagði Carragher.

„Hann hefur verið stór hluti af anda Manchester United. Ég sá leik um daginn þar sem United skoraði undir lokin og hann fór og fagnaði þrátt fyrir að vera varamaður.“

Carragher sagði þó að andstæðingar United myndu einhvern nýta sér smæð Martínez.

„Allir leikmenn hafa veikleika. Bestu leikmennirnir fela þá og koma í veg fyrir að þeir verði berskjaldaðir. Hann er mjög góður leikmaður og það hefur komið mér á óvart hversu vel hann hefur spjarað sig,“ sagði Carragher.

Martínez, sem er 25 ára, hefur leikið 31 leik fyrir United í öllum keppnum í vetur og skorað eitt mark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×