Enski boltinn

Martínez notar sama uppnefni um Weghorst og Messi gerði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þrátt fyrir að hafa tekist á í hitaleik Argentínu og Hollands eru engin illindi milli Lisandros Martínez og Wouts Weghorst.
Þrátt fyrir að hafa tekist á í hitaleik Argentínu og Hollands eru engin illindi milli Lisandros Martínez og Wouts Weghorst. getty/Jean Catuffe

Lisandro Martínez kallar Wout Weghorst, samherja sinn hjá Manchester United sama uppnefni og Lionel Messi notaði um hann: bobo.

Heitt var í kolunum þegar Argentína sló Holland úr leik í átta liða úrslitum á HM í Katar í desember. Weghorst skoraði bæði mörk Hollendinga sem knúðu fram vítaspyrnukeppni eftir að hafa lent 2-0 undir. Argentína vann svo vítakeppnina og varð á endanum heimsmeistari.

Í leikmannagöngunum eftir leikinn sagði Messi Weghorst að hypja sig þegar hann ætlaði að þakka honum fyrir leikinn og freista þess að fá treyjuna hans. Og Messi kallaði Weghorst bobo, eða hálfvita.

Weghorst gekk í raðir United í janúar og Martínez ku ekki kalla hann annað en bobo. Weghorst tekur ekki illa í það enda sagðist hann eitt sinn vera þakklátur fyrir að Messi þekkti hann með nafni.

Weghorst hefur ekki farið af stað með neinum látum með United og aðeins skorað eitt mark í sjö leikjum fyrir liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×