Enski boltinn

Vill að „sí­brota­maðurinn“ Lee Mason verði rekinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lee Mason gerði slæm mistök um helgina.
Lee Mason gerði slæm mistök um helgina. getty/Robbie Jay Barratt

Yfirmaður dómaramála í ensku úrvalsdeildinni, Howard Webb, ætti að reka Lee Mason vegna mistaka hans í VAR-herberginu í leik Arsenal og Brentford í fyrradag. Þetta segir fyrrverandi dómarinn og dómarastjórinn Keith Hackett.

Mason varð all svakalega á í messunni í leiknum á laugardaginn er hann leyfði marki Brentford að standa þrátt fyrir að Christian Nörgaard væri rangstæður í aðdraganda þess. Mason gleymdi að teikna rangstöðulínur þegar hann skoraði markið.

Leikurinn á Emirates endaði með 1-1 jafntefli og Arsenal varð því af tveimur mikilvægum stigum í toppbaráttunni.

„Lee er síbrotamaður og hefur þegar fengið bágt fyrir mistök sem er ekki nógu gott. Eitt það fyrsta sem Webb ætti að gera er að reka hann,“ sagði Hackett.

„Lee ætti að vera við botninn á listanum yfir bestu dómarana. Hann ætti ekki að vera þarna lengur. Að vera dómari er erfitt en ef þú ert leikmaður og stendur þig ekki ertu tekinn út úr liðinu. Það sama ætti að gerast með dómara ef þeir standa sig ekki.“

Enskir fjölmiðlar hafa greint frá því að Webb hafi boðað til neyðarfundar eftir helgina. Brighton varð líka fyrir barðinu á mistökum í VAR-herberginu en löglegt mark var tekið af liðinu í 1-1 jafntefli við Crystal Palace á laugardaginn og þá var Chelsea snuðað um vítaspyrnu í 1-1 jafnteflinu við West Ham United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×