Enski boltinn

Fengu Cody Gakpo til að lýsa fyrsta markinu sínu fyrir Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cody Gakpo fagnar fyrsta marki sínu fyrir Liverpool og það sást vel hvað hann var feginn.
Cody Gakpo fagnar fyrsta marki sínu fyrir Liverpool og það sást vel hvað hann var feginn. Getty/Andrew Powell

Cody Gakpo tókst loksins að opna markareikning sinn hjá Liverpool í sigrinum í derby-slagnum á móti Everton á mánudagskvöldið.

Gakpo skoraði seinna mark Liverpool í 2-0 sigri en þetta var fyrsti deildarsigur liðsins á nýju ári.

Það voru miklar væntingar gerðar til þessa 23 ára gamla Hollendings eftir góða frammistöðu á HM í Katar þar sem hann skoraði þrívegis.

Þetta var hans sjöundi leikur fyrir félagið síðan að Liverpool keypti hann frá PSV Eindhoven fyrir á bilinu 40 til 50 milljónir evra.

Gakpo skoraði 13 mörk í 24 leikjum með PSV fyrir áramót en þurfti að bíða í 546 mínútur eftir sínu fyrsta marki í Liverpool búningnum.

Gakpo tókst heldur ekki að skora í tveimur síðustu leikjum sínum með hollenska landsliðinu á HM og hafði því verið markalaust í átta leikjum í röð.

Þetta var því langþráð mark hjá stráknum. Samfélagsmiðlafólkið hjá Liverpool fékk hann því að lýsa fyrsta markinu sínu fyrir Liverpool og má sjá þessa lýsingu hér fyrir neðan.

Markið skoraði Gakpo eftir flotta sókn og stoðsendingu frá Trent Alexander-Arnold sem fær hana samt ekki skráða hjá ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×