Enski boltinn

Ödegaard og Haaland töluðu aldrei um leikinn í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Ödegaard þakkar landa sínum Erling Haaland eftir bikarleik Arsenal og Manchester City á dögunum.
Martin Ödegaard þakkar landa sínum Erling Haaland eftir bikarleik Arsenal og Manchester City á dögunum. Getty/Simon Stacpoole/

Augu manna verða á tveimur norskum fótboltamönnum í kvöld þegar Arsenal og Manchester City mætast í einum af úrslitaleikjum ensk úrvalsdeildarinnar á þessu tímabili.

Arsemal er í efsta sætinu en Manchester City getur náð toppsætinu með sigri í kvöld.

Martin Ödegaard er fyrirliði Arsenal og Erling Braut Haaland er langmarkahæsti leikmaður Manchester City. Þeir eru líka liðsfélagar í norska landsliðinu.

Ödegaard segir að þeir félagar hafi forðast það að ræða leikinn mikilvæga í kvöld.

„Við erum með WhatsApp spjallhóp hjá norska landsliðinu og við höfum talað mikið saman þar. Við höfum samt ekki talað um þennan leik,“ sagði Martin Ödegaard.

„Þetta er mikilvægur leikur og það er saga á milli þessara liða. Það kemur mér ekki á óvart hvað Haaland hefur gert góða hluti hjá Manchester City. Ég hef fylgst með honum í mörgum ár og ég veit að hann er frábær leikmaður og ótrúlegur markaskorari,“ sagði Ödegaard.

Erling Haaland hefur skorað 25 mörk og gefið 4 stoðsendingar í 21 deildarleik með City í vetur en Ödegaard er með 8 mörk og 5 stoðsendingar í 20 deildarleik með Arsenal.

Arsenal hefur spilað einum leik færra en Manchester City en er með þremur stigum meira.

Haaland var eitthvað tæpur eftir að hafa farið snemma af velli um síðustu helgi en það er samt búist við því að hann verið leikfær í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×