Enski boltinn

Haaland: Stoltur af hverjum einasta manni

Smári Jökull Jónsson skrifar
Haaland fagnar marki sínu og þriðja marki City í kvöld.
Haaland fagnar marki sínu og þriðja marki City í kvöld. Vísir/Getty

Erling Haaland skoraði þriðja mark Manchester City í sigri liðsins á Arsenal í toppslag ensku úrvalsdeildarinnar. Hann segir Arsenal hafa verið besta liðið á tímabilinu til þessa.

Manchester City lyfti sér á topp ensku úrvalsdeildarinnar með 3-1 sigri á Arsenal á útivelli í kvöld. Liðin eru nú jöfn í efstu tveimur sætum deildarinnar, City er með betri markatölu en Arsenal á leik til góða.

Erling Haaland var í viðtali á BBC að leik loknum í kvöld og hann tók undir að frammistaða City liðsins hefði minnt á meistaralið.

„City, félagið en ekki ég, eru meistarar þannig að ég já þetta var meistaraleg frammstaða,“ sagði Haaland eftir leikinn.

„Pep (Guardiola) gerði örlitlar breytingar í hálfleik og við erum með hágæðaleikmenn, við þurfum að ná því út úr hverjum og einum og það gerðum við í dag.“

Erling Haaland var ánægður með frammistöðu liðsins í kvöld og sagði að liðið væri aftur komið í slaginn um titilinn.

„Við þurfum að spila oftar eins og í kvöld. Ég er svo stoltur af hverjum einasta manni og svo ánægður að vera hérna.“

„Við getum öll verið sammála um það að Arsenal hefur verið besta liðið á tímabilinu og að spila gegn þeim er ekki auðvelt. Við spiluðum frábæran leik og náðum í þrjú mjög mikilvæg stig, við erum með í þessu aftur.“

Hann segir að Manchester City þurfi að nýta þennan sigur til að koma sér í gang.

„Þetta var mjög jákvætt, góð fagnarlæti og ég er svo ánægður með allt. Við þurftum þennan sigur og núna þurfum við að fara í gang því það er það sem Manchester City ætti að gera.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×