Enski boltinn

Ten Hag naut kvöldverðarins með Ferguson: „Frábært kvöld og ég hlakka til þess næsta“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sir Alex Ferguson og Erik ten Hag deildu einni rauðri.
Sir Alex Ferguson og Erik ten Hag deildu einni rauðri.

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, naut þess að snæða kvöldverð með Sir Alex Ferguson.

Ten Hag og Ferguson sáust saman á veitingastað í Manchester í gær. Stuðningsmönnum United hlýnaði um hjartaræturnar að sjá stjórann sinn ræða við fremsta stjóra í sögu félagsins. Ten Hag hafði líka gaman að því að snæða með gamla manninum.

„Ég nýt þess alltaf að tala við þá sem búa yfir mikilli þekkingu og reynslu. Hann vill miðla af reynslu,“ sagði Ten Hag á blaðamannafundi í dag.

„Honum finnst Manchester United vera félagið sitt. Hann vill að okkur vegni vel. Þetta var frábært kvöld og ég hlakka til þess næsta.“

United tekur á móti Barcelona í seinni leik liðanna í umspili um sæti í útsláttarkeppni Evrópudeildarinnar annað kvöld. Fyrri leikurinn fór 2-2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×