Enski boltinn

Ten Hag: Sýnir að Man. United getur unnið alla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erik ten Hag fagnar sigri Manchester United á Barcelona á Old Trafford í gær.
Erik ten Hag fagnar sigri Manchester United á Barcelona á Old Trafford í gær. AP/Dave Thompson

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, var að sjálfsögðu mjög kátur eftir endurkomusigur liðsins á Barcelona á Old Trafford í gær.

United liðið lenti undir eftir að hafa fengið dæmda á sig umdeilda vítaspyrnu en skoraði tvö mörk í seinni hálfleiknum og tryggði sér sæti í sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar.

Manchester United hefur boðað endurkomu sína í hóp bestu liða Englands á þessu tímabili og liðið hefur fagnað sigrum á Liverpool, Arsenal, Tottenham og Manchester City á leiktíðinni.

Sigurinn í gær þýðir að Manchester United á enn möguleika á því að vinna fernuna á þessu tímabili.

Ten Hag segir að liðið óttist nú ekkert lið lengur.

„Þú þarft að ná í úrslit til að efla trúna. Ég tel að þetta sé annað stórt skref fyrir okkur því ef þú getur unnið Barcelona, eitt besta liðið í Evrópu í dag, þá færð þú mikla trú á því að þú getir unnið alla,“ sagði Erik ten Hag.

Ten Hag gat ekki annað en borið saman úrslit Liverpool og Manchester United í Evrópuleikjum liðanna í vetur.

„Þetta var stórkostlegt kvöld. Það er frábært að ná að vinna Barcelona sem er átta stigum á undan Real Madrid í spænsku deildinni miðað við hvað við sáum frá Real Madrid í vikunni,“ sagði Ten Hag en Real vann auðvitað 5-2 sigur á Liverpool á Anfield í Meistaradeildinni.

„Við sýndum frábæra frammistöðu og við verðum að taka þetta með okkur í næstu leiki, trúna á það að við getum unnið stóra leiki,“ sagði Ten Hag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×