Enski boltinn

Partey gæti verið með um helgina og Jesus nálgast

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Thomas Partey hefur misst af síðustu tveimur leikjum Arsenal.
Thomas Partey hefur misst af síðustu tveimur leikjum Arsenal. getty/Stephanie Meek

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, vonast til að geta teflt Thomas Partey fram í leiknum gegn Leicester City á sunnudaginn.

Partey hefur misst af síðustu tveimur leikjum Arsenal vegna meiðsla. Arsenal tapaði fyrri leiknum fyrir Manchester City, 1-3, en vann þann síðari, 2-4, gegn Aston Villa.

Arteta heldur í vonina að Partey geti komið við sögu í leiknum á King Power leikvanginum í Leicester á sunnudaginn.

„Thomas er spurningarmerki. Hann hefur ekki æft mikið,“ sagði Arteta á blaðamannafundi í dag. 

„Hann gæti verið klár. Sjáum hvernig hann æfir í dag. Hann er mjög mikilvægur leikmaður fyrir okkur og við höfum saknað hans í síðustu leikjum. Vonandi verður hann til taks.“

Arteta sagði jafnframt að biðin eftir endurkomu Gabriels Jesus styttist óðum. Brassinn hefur ekkert spilað með Arsenal frá því eftir HM í Katar vegna hnémeiðsla.

„Hann er á góðri leið, gerir meira og meira og hnéð bregst ekki við sem er jákvætt,“ sagði Arteta.

„Við viljum fá hann inn sem fyrst en verðum líka að taka tillit til tímarammans sem við höfum fengið frá læknum og sérfræðingum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×