Enski boltinn

Klopp: Eitt stig er allt í lagi en ekki frábært

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Klopp á hliðarlínunni í gærkvöldi.
Klopp á hliðarlínunni í gærkvöldi. vísir/Getty

Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, var nokkuð rólegur í viðtali eftir markalaust jafntefli liðsins gegn Crystal Palace í gærkvöldi.

Liverpool hefur verið í töluverðum vandræðum að undanförnu og á að hættu að ná ekki að komast í Meistaradeildina á næstu leiktíð.

„Ég var ánægður með byrjunina á leiknum. Við vorum að tengja vel og sendingarnar voru góðar. Við komumst ekki á bakvið þá og þurftum því að finna svæði á milli línanna hjá þeim. Þeir áttu ekkert skot á mark en við þrjú eða fjögur. Mo (Salah) setur boltann í slánna, Diogo (Jota) á skallann og Cody (Gakpo) fékk færi seint í leiknum,“ þuldi Klopp upp í leikslok.

„Þeir voru mjög aggresífir og ég finn að það er eitthvað ekki í lagi hjá okkur. Þetta er samt stig á útivelli. Það er allt í lagi en ekki frábært,“ sagði Klopp.

Hann segir Liverpool alltaf hafa átt erfitt með að heimsækja Selhurst Park í sinni stjórnartíð hjá félaginu.

„Það er frábært að halda hreinu, það er það sem maður vill. Þetta var mjög líkt þeim leikjum sem við höfum spilað hérna undanfarin ár. Munurinn er sá að við náðum ekki að skora,“ segir Klopp en leikurinn kom skömmu eftir að Liverpool beið afhroð fyrir Real Madrid á Anfield í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

„Ég vil ekki segja að Real Madrid leikurinn hafi setið í okkur. Ef við hefðum skorað hefðum við farið heim með 0-1 sigur. Ég hef staðið í þessu sama herbergi og talað um erfiðan leik en þá unnum við á föstu leikatriði,“ sagði Klopp.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×