Enski boltinn

Rashford fær markið skráð á sig eftir allt saman

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcus Rashford fagnar með knattspyrnustjórnaum Erik ten Hag í leikslok á Wembley í gær.
Marcus Rashford fagnar með knattspyrnustjórnaum Erik ten Hag í leikslok á Wembley í gær. AP/Scott Heppell

Marcus Rashford skoraði eftir allt saman í úrslitaleik enska deildabikarsins í gær þegar Manchester United tryggði sér fyrsta titilinn í sex ár með 2-0 sigri á Newcastle á Wembley.

Seinna mark United sem var skráð fyrst á Marcus Rashford og svo breytt í sjálfsmark hefur nú aftur verið skráð á enska landsliðsframherjann.

Skot Rashford hafði viðkomu í Sven Botman, varnarmanni Newcastle, og fór þaðan yfir Loris Karius í markið. Botman endaði því leikinn með sjálfsmark en nú tæpum sólarhringi seinna er hann laus við þá skömm.

Markanefnd ensku deildakeppninnar hefur nefnilega fundað og komist að þeirri niðurstöðu að Rashford eigi að fá markið. Um leið fær Wout Weghorst skráða á sig stoðsendingu.

Rashford sjálfur var fullviss um að hann ætti markið eins og sjá má hér fyrir neðan.

Þetta er því 25. markið hans Rashford á tímabilinu en hann hefur skorað sautján mörk í síðustu nítján leikjum eða síðan hann kom heim af HM í Katar þar sem hann fann skotskóna.

Rashford gæti orðið fyrsti leikmaður Manchester United til að skora þrjátíu mörk á tímabili síðan að Robin van Persie náði því 2012-13 tímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×