Enski boltinn

Ten Hag: Fernu-tal er bara fyrir stuðnings­mennina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erik ten Hag lyfti hér enska deildabikarnum eftir sigur Manchester United á Newcastle United á Wembley um síðustu helgi.
Erik ten Hag lyfti hér enska deildabikarnum eftir sigur Manchester United á Newcastle United á Wembley um síðustu helgi. Getty/James Gill

Manchester United hefur þegar unnið einn titil á tímabilinu og getur enn bætt við þremur til viðbótar.

Knattspyrnustjórinn Erik ten Hag talaði (eða talaði ekki) um mögulegt fernutímabil á blaðamannafundi fyrir bikarleik á móti West Ham í kvöld.

United liðið er í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar og átta stigum frá toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar. Leikurinn á móti West Ham í kvöld er síðan í sextán liða úrslitum ensku bikarkeppninnar.

Ten Hag segist ekki einu sinni hafa hugsað um möguleikann á því að vinna alla fjóra bikarana á þessu tímabili.

„Það tal er bara fyrir stuðningsmennina,“ sagði Erik ten Hag á blaðamannafundinum.

„Við verðum að einbeita okkur að næsta leik og það er það eina sem við erum að gera,“ sagði Ten Hag.

„Núna erum við búnir að tala í tíu mínútur og ég hef ekki heyra eitt orð um West Ham. Ég hélt að þetta væri blaðamannafundur fyrir leik á móti West Ham og það er því það eina sem við ættum að tala um,“ sagði Ten Hag.

„Við þurfum ekki að tala um titla. Við þurfum að tala um West Ham United, því það er leikurinn sem bíður okkar á morgun (í kvöld),“ sagði Ten Hag.

Leikur Manchester United og West Ham hefst klukkan 19.45 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.

United gæti þurft að spila 65 leiki á tímabilinu ef liðið kemst í báða úrslitaleikina í enska bikarnum og Evrópudeildinni en liðið spilaði átta leiki í febrúar. Hollenski stjórinn lítur hins jákvæðum en ekki neikvæðum augum á það að spila svona marga leiki.

„Mín reynsla frá Ajax segir mér það að þegar við duttum út úr Evrópukeppninni þá duttu gæðin niður og þegar þú ert í Evrópukeppninni þá gefur það liðinu orku. Hingað til hefur okkur gengið vel að vinna með leikjaálagið og ég tel að við getum haldið því áfram út tímabilið,“ sagði Ten Hag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×