Enski boltinn

Gary Neville: Leikmenn Manchester United voru étnir lifandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bruno Fernandes fékk að heyra það eftir 7-0 tap Manchester United á móti Liverpool á Anfield í gær.
Bruno Fernandes fékk að heyra það eftir 7-0 tap Manchester United á móti Liverpool á Anfield í gær. Getty/Matthew Peters

Fyrrum fyrirliði Manchester United sparaði ekki stóru orðin þegar hann gagnrýndi liðið eftir 7-0 tap á móti Liverpool á Anfield í gær. Þetta er stærsta tap United í sögu ensku úrvalsdeildarinnar og það á móti erkifjendunum í Liverpool.

Gary Neville var algjörlega misboðið og tók fyrirliðann Bruno Fernandes sérstaklega fyrir þegar hann gagnrýndi skammarlega frammistöðu liðsins. Sex af sjö mörkum Liverpool komu í seinni hálfleiknum.

„Seinni hálfleikurinn var algjör hneisa,“ sagði Gary Neville á Sky Sports.

„Liðinu var slátrað og enginn var verri en Bruno Fernandes sem var hreinlega vandræðalega lélegur á tímum,“ sagði Neville.

„Þeir áttuðu sig ekki á hættunni í þessari viðureign. Leikmenn Manchester United voru étnir lifandi í þessum leik,“ sagði Neville.

Neville var meðal annars ósáttur með það að Fernandes vildi losna af velli þegar Marcus Rashford var tekinn af velli á 85. mínútu

„Hann hélt uppi höndunum eins og hann væri að spyrja: Af hverju er ég ekki að koma af velli? Ég hef fengið mig fullsaddan af Fernandes að veifa höndunum, vælandi í öllum og haldandi um andlitið þegar einhver kemur við hann,“ sagði Neville.

„Það var ekki frammistaða sæmandi fyrirliða Manchester United og ég er viss um að Erik ten Hag mun taka á því,“ sagði Neville.

BBC fjallaði um viðbrögð Neville og annarra sérfræðinga Sky Sports eftir leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×