Enski boltinn

Handtóku táninginn sem gerði Klopp brjálaðan

Sindri Sverrisson skrifar
Jürgen Klopp lét stuðningsmanninn heyra það eftir að sá hafði verið nálægt því að valda meiðslum hjá Andy Robertson.
Jürgen Klopp lét stuðningsmanninn heyra það eftir að sá hafði verið nálægt því að valda meiðslum hjá Andy Robertson. Getty/Robbie Jay Barratt

Lögreglan í Merseyside hefur handtekið 16 ára dreng fyrir að brjóta sér leið inn á völlinn á Anfield í gær þegar Liverpool vann 7-0 risasigurinn gegn Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Unglingurinn reitti meðal annars Jürgen Klopp, knattspyrnustjóra Liverpool, til mikillar reiði þegar hann óð inn á völlinn og rann á skoska bakvörðinn Andy Robertson. Leikmaðurinn greip um ökkla sinn og virtist þjáður, og jós Klopp úr skálum reiði sinnar þegar unglingurinn var leiddur framhjá honum og í burtu af vellinum.

Liverpool gaf út í dag að þegar í stað hæfist rannsókn á atvikinu svo hægt væri að finna þann sem hljóp inn á völlinn í leyfisleysi, og að hann yrði settur í bann.

Skömmu síðar kom svo fram í yfirlýsingu lögreglu að sextán ára drengur hefði verið handtekinn, og að lögreglan ynni með knattspyrnufélaginu Liverpool í málinu.

Í yfirlýsingu Liverpool segir að ekkert afsaki svona ólíðandi og hættulega hegðun, og að félagið setji öryggi leikmanna, andstæðinga og stuðningsmanna í forgang.

Klopp hafði haft margar ástæður til að gleðjast í seinni hálfleiknum í gær þegar lærisveinar hans skoruðu sex mörk eftir að hafa komist í 1-0 skömmu fyrir leikhlé. Atvikið sem nefnt er hér að ofan var það eina sem skyggði á gleðina en það gerðist eftir að Roberto Firmino skoraði sjöunda mark Liverpool á 88. mínútu.

Robertson kláraði leikinn en hann lagði meðal annars upp fyrsta markið með frábærri sendingu á Cody Gakpo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×