Enski boltinn

Weghorst svarar fyrir af hverju hann snerti „This is Anfield“ skiltið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wout Weghorst og félagar í Manchester United fengu sögulega útreið á Anfield.
Wout Weghorst og félagar í Manchester United fengu sögulega útreið á Anfield. Getty/Michael Regan

Hollenski framherjinn Wout Weghorst hjá Manchester United hefur fengið á sig efasemdir um hollustu sína til Manchester United eftir að menn sáu til hans snerta „This is Anfield“ skiltið fyrir 7-0 tapið á móti Liverpool um helgina.

Það er þekkt hefð fyrir leikmenn Liverpool að snerta skiltið fyrir leik og eftir að menn sáu myndir af þessu fóru einhverjir að rifja upp gamalt viðtal við Weghorst þar sem hann sagðist halda með Liverpool.

Weghorst var eins og flestir leikmenn Manchester United heillum horfinn í þessum leik og sem framherji sem skorar ekki mörg þá var kappinn fljótur að finna fyrir hraðri og óvægri gagnrýni á sig eftir úrslitin og myndbandið með skiltið.

Weghorst ákvað því að stíga fram og útskýra hvað var þarna í gangi. Hann segist hafa verið að reyna að pirra landsliðsfélaga sinn Virgil van Dijk með því að snerta skiltið.

„Ég þekki það frá landsliðinu að Virgil snertir alltaf skiltið,“ sagði Wout Weghorst sem er hjá Manchester United á láni frá Burnley.

„Það eina sem ég var að hugsa um var að koma í veg fyrir að hann snerti skiltið og reyna að pirra hann,“ sagði Weghorst.

„Vanalega er ég ekki að bregðast við fjölmiðlaumfjöllun en það er þess virði að þessu sinni því stuðningsmenn Manchester United eru mér mikilvægir. Sem barn þá hélt ég með FC Twente og sem stoltur leikmaður Manchester United í dag þá geta menn aldrei efast um hollustu mína til félagsins,“ sagði Weghorst.

„Sunnudagurinn var hræðilegur fyrir okkur alla. Við ætlum að gera allt til að bæta fyrir það á næstu vikum. Við komum til baka samaneinaðir og ætlum að ná markmiðum okkar á tímabilinu,“ sagði Weghorst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×