Enski boltinn

Arsenal enn á ný í vandræðum eftir fagnaðarlætin um síðustu helgi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Varamenn Arsenal hlupu inn á völlinn til að fagna sigurmarkinu á móti Bournemouth.
Varamenn Arsenal hlupu inn á völlinn til að fagna sigurmarkinu á móti Bournemouth. Getty/Stuart MacFarlane

Arsenal gæti fengið á sig fjórðu ákæru tímabilsins frá enska knattspyrnusambandinu en verið er að skoða hvað gekk á undir lokin þegar Arsenal menn skoruðu dramatískt sigurmakrið á móti Bournemouth.

Sigurmarkið kom á sjöundu mínútu í uppbótatíma og verður líklega eitt af því sem verður rifjað oft upp nái Arsenal að vinna ensku deildina.

Arsenal lenti 2-0 undir en náði að snúa leiknum. Það brutust út gríðarleg fagnaðarlæti eftir sigurmark varamannsins Reiss Nelson.

Arsenal menn fóru mögulega yfir strikið í fagnaðarlátunum og þá sérstaklega starfsmenn og varamenn liðsins.

Bekkurinn hljóp inn á völlinn til að fagna marki Reiss Nelson.

Chris Kavanagh, dómari leiksins, skrifaði um atvikið í skýrslu sinni um leikinn.

Rannsókn stendur yfir og því á enska knattspyrnusambandið eftir að ákveða hvort Arsnal verði ákært í fjórða sinn á tímabilinu.

Arsenal þurfti að borga 40 þúsund pund fyrir að hafa ekki stjórn á leikmönnum sínum í markalausu jafntefli á móti Newcastle í janúar. Sex dögum síðar var Arsenal aftur refsað fyrir svipaða hluti og um sömu upphæð en að þessu sinni fyrir að umkringja dómara í bikarleik á móti Oxford United.

Þriðja ákæran kom síðan eftir leikinn á móti Manchester City en bæði félög fengu sekt fyrir að leikmenn þeirra höguðu sér ekki sómasamlega í leiknum. Arsenal fékk þá 65 þúsund punda sekt auk tuttugu þúsund punda sekt að auki sem til vegna skilorðsbundinnar refsingar vegna Oxford leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×