Enski boltinn

Moyes segir að framherji West Ham sé ekki í nógu góðu formi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gianluca Scamacca hitaði upp af miklum móð en fékk ekki að koma inn á þegar West Ham United gerði 1-1 jafntefli við Aston Villa í gær.
Gianluca Scamacca hitaði upp af miklum móð en fékk ekki að koma inn á þegar West Ham United gerði 1-1 jafntefli við Aston Villa í gær. getty/Rob Newell

David Moyes, knattspyrnustjóri West Ham United, segir að ítalski framherjinn Gianluca Scamacca sé ekki í nógu góðu formi til að fá tækifæri með liðinu.

Scamacca sat allan tímann á varamannabekknum þegar West Ham gerði 1-1 jafntefli við Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni í gær. Ítalinn hefur verið ónotaður varamaður í síðustu fjórum deildarleikjum West Ham.

„Við vitum að þol- og þrektölurnar hans þurfa að vera betri en þær eru núna,“ svaraði Moyes er hann var spurður af hverju Scamacca hefði ekkert spilað í gær. Þegar Danny Ings þurfti að fara af velli undir lok leiks setti Moyes frekar kantmanninn Maxwell Cornet inn á en Scamacca.

„Hugsunin var að Maxi gæti komist inn fyrir vörnina og við sáum hann fyrir okkur gera meira af því en Gianluca. Hann verður að koma til baka. Enginn stjóri vill stilla upp slæmu liði. Þú notar leikmennina sem þú heldur að muni vinna leikinn fyrir þig og því notarðu alltaf sterkasta liðið sem völ er á.“

West Ham keypti Scamacca frá Sassuolo á 35,5 milljónir punda í sumar. Hann hefur skorað sjö mörk fyrir Hamrana í 26 leikjum í öllum keppnum á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×