Enski boltinn

Gráti næst þegar hann sá strákinn sinn skora í beinni útsendingu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Robbie Savage fagnaði vel og innilega þegar hann sá að sonur sinn hefði skorað.
Robbie Savage fagnaði vel og innilega þegar hann sá að sonur sinn hefði skorað.

Robbie Savage grét nánast úr gleði þegar hann sá að sonur sinn, Charlie, hefði skorað sitt fyrsta aðalliðsmark.

Charlie er samningsbundinn Manchester United en var lánaður til C-deildarliðsins Forest Green Rovers í janúar. Hann skoraði sitt fyrsta mark fyrir liðið þegar það tók á móti Bristol Rovers á laugardaginn.

Á sama tíma var Robbie álitsgjafi í sjónvarpsþættinum BT Sport Score þar sem fylgst er með stöðunni í leikjunum í ensku deildunum.

Þegar Robbie sá að Charlie hefði skorað fyrir Forest Green gat hann ekki leynt gleði sinni. „Jááááá! Strákurinn minn hefur skorað!“ sagði Robbie í sæluvímu.

Mark Charlies dugði Forest Green þó skammt því Bristol Rovers vann leikinn, 3-1. Forest Green er á botni C-deildarinnar og hefur ekki unnið í síðustu fimmtán leikjum sínum.

Charlie, sem er nítján ára, hefur leikið einn leik fyrir aðallið United, eitthvað sem föður hans tókst aldrei. Robbie átti þó fínasta feril með liðum á borð við Leicester City og Blackburn Rovers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×