Enski boltinn

Howe segir ummæli Ten Hags um tafir Newcastle kjaftæði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eddie Howe og Erik ten Hag deildu á hliðarlínunni í gær.
Eddie Howe og Erik ten Hag deildu á hliðarlínunni í gær. getty/James Gill

Eddie Howe, knattspyrnustjóri Newcastle United, segir ásakanir Eriks ten Hag, stjóra Manchester United, um að Skjórarnir séu full duglegir við að tefja vera kjaftæði.

Newcastle komst upp fyrir United í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með öruggum sigri, 2-0, í leik liðanna á St James' Park í gær. Joe Willock og Callum Wilson skoruðu mörk heimamanna.

Fyrir leikinn sagði Ten Hag að Newcastle-liðið væri pirrandi og hefði tafið hressilega í fyrri leiknum gegn United á Old Trafford. Hann endaði með markalausu jafntefli.

Howe gaf ekki mikið fyrir ummæli Ten Hags er hann var spurður út í þau eftir leikinn í gær.

„Höfum það á hreinu að við viljum hafa boltann í leik. Við viljum hraðan leik. Ég skil ekki hvaðan þetta tafakjaftæði kemur frá honum. Við vildum fá boltann strax í leik,“ sagði Howe.

Þeim Ten Hag lenti aðeins saman í seinni hálfleik þegar United reyndi að koma boltanum fljótt í leik eftir að hafa lent undir. Howe benti Ten Hag þá á að United hefði líka tafið í stöðunni 0-0.

Þórðargleðin var við völd hjá umsjónarmanni Twitter-síðu Newcastle í gær en hann skaut tvívegis á United í færslum sínum eins og sjá má hér fyrir neðan.

Newcastle og United eru jöfn að stigum í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar en Skjórarnir eru með hagstæðari markatölu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×