Erlent

Pólitískur ný­liði kosinn for­seti í Svart­fjalla­landi

Atli Ísleifsson skrifar
Hinn 36 ára Jakov Milatovic stundaði á sínum tíma nám í hagfræði við Oxford-háskóla í Bretlandi.
Hinn 36 ára Jakov Milatovic stundaði á sínum tíma nám í hagfræði við Oxford-háskóla í Bretlandi. EPA

Hagfræðingurinn Jakov Milatovic, sem er nýliði á hinu pólitíska sviði, var kjörinn forseti Svartfjallalands í forsetakosningum sem fram fóru í landinu í gær.

Milatovic lýsti í gærkvöldi yfir sigur gegn sitjandi forseta, Milo Djukanovic, sem tók við embættinu árið 2018. Djukanovic viðurkenndi sömuleiðis ósigur.

Hinn 36 ára Milatovic hét því í kosningabaráttunni að taka hressilega á spillingu í landinu og leiða landið inn í Evrópusambandið.

Um var að ræða síðari umferð forsetakosninganna þar sem kosið var á milli þeirra tveggja sem hlutu flest atkvæði í fyrri umferðinni í síðasta mánuði.

Samkvæmt útgönguspám hlaut Milatovic um 60 prósent atkvæða í kosningunum en hinn 61 árs gamli Djukanovic um 40 prósent atkvæða.

Milo Djukanovic hefur bæði gegnt embætti forsætisráðherra og forseta Svartfjallalands.EPA

Í sigurræðu sinni sagði Milatovic að sigurinn væri sögulegur og að þetta væri nótt „sem við höfum beðið eftir í þrjátíu ár“.

Milatovic hefur farið fyrir hreyfingu sem kallar sig „Evrópa núna!“ en skipunartímabil forseta í Svartfjallandi er fimm ár.

Djukanovic hefur verið í valdastöðu í landinu í 32 ár, en hann hefur margoft gegnt hlutverki forseta og forsætisráðherra.

Hann komst til valda árið 1991 þegar hann varð forsætisráðherra og var við völd þegar Svartfellingar ákváðu að vera áfram hluti af Júgóslavíu ásamt Serbíu. Þá var hann forsætisráðherra þegar Svartfjallaland lýsti yfir sjálfstæði árið 2006 í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×