Enski boltinn

Klopp segist enn stjóri Liverpool vegna fortíðarinnar

Sindri Sverrisson skrifar
Jürgen Klopp hefur náð stórkostlegum árangri hjá Liverpool en yfirstandandi leiktíð hefur ekki gengið vel.
Jürgen Klopp hefur náð stórkostlegum árangri hjá Liverpool en yfirstandandi leiktíð hefur ekki gengið vel. Getty/James Gill

Jürgen Klopp segir að ástæðan fyrir því að hann hafi ekki verið rekinn vegna gengis Liverpool í vetur sé sá árangur sem liðið hafi náð undir hans stjórn í fortíðinni.

Graham Potter var rekinn frá Chelsea í gær og Brendan Rodgers rekinn frá Leicester, svo að alls hafa tólf stjórar í ensku úrvalsdeildinni verið reknir á þessari leiktíð. Það er met í deildinni.

Liverpool steinlá gegn Manchester City um helgina, 4-1, og er aðeins í áttunda sæti deildarinnar með 42 stig eftir 27 leiki. Niðurstaðan gæti orðið versta tímabil liðsins frá því að Klopp var ráðinn til Liverpool fyrir átta árum.

„Ef að þetta væri fyrsta leiktíðin mín þá væri staðan svolítið önnur,“ sagði Klopp þegar hann ræddi við fjölmiðla fyrir leikinn við Chelsea sem fram fer annað kvöld.

„Ég geri mér grein fyrir því að ástæðan fyrir því að ég sit hérna er fortíðin, en ekki það sem við höfum verið að gera á þessari leiktíð,“ sagði Klopp.

Undir stjórn Klopps lauk þriggja áratuga bið Liverpool eftir Englandsmeistaratitli árið 2020, liðið varð Evrópumeistari árið 2019 og vann bikar- og deildabikarmeistaratitilinn í fyrra. Þessi árangur gerir stöðu Klopps afar sterka.

„Við erum með klára eigendur sem þekkja stöðuna. Það er engin ástæða fyrir mig til að óttast. Ég er hérna til að skila mínu,“ sagði Klopp.

„Ég veit að ég er enn hérna vegna þess sem gerst hefur á síðustu árum. Ég er ekki ánægður með að ég þurfi nánast að treysta á það. Er það rétt eða ekki? Við sjáum til í framtíðinni,“ sagði Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×