Enski boltinn

Mitrovic fékk langt bann fyrir að ýta dómaranum

Sindri Sverrisson skrifar
Aleksandar Mitrovic missti stjórn á sér í bikarleiknum gegn Manchester United.
Aleksandar Mitrovic missti stjórn á sér í bikarleiknum gegn Manchester United. Getty/Clive Brunskill

Aleksandar Mitrovic, framherji Fulham, hefur verið úrskurðaður í átta leikja bann af enska knattspyrnusambandinu eftir hegðun sína í bikarleiknum gegn Manchester United á dögunum.

Mitrovic ýtti við Chris Kavanagh, dómara leiksins, í æðiskasti en hann var hundóánægður með það að Kavanagh skyldi dæma víti og rautt spjald á Willian fyrir að verja skot með hendi á marklínu.

Serbinn fékk þriggja leikja bann vegna rauða spjaldsins, þriggja leikja bann fyrir ofbeldisfulla hegðun og loks tveggja leikja bann til viðbótar fyrir óviðeigandi, móðgandi og ógnandi tal.

Mitrovic þarf auk þess að greiða 75.000 pund í sekt vegna málsins. Hann hefur þegar tekið út einn leik í banninu langa en mun ekki geta spilað aftur með Fulham fyrr en gegn Southampton þann 13. maí.

Marco Silva, stjóri Fulham, fékk tveggja leikja bann vegna sinnar brottvísunar.

Fulham var 1-0 yfir þegar þeir Willian, Mitrovic og Silva fengu rauða spjaldið en United jafnaði metin úr vítaspyrnunni og vann leikinn 3-1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×