Enski boltinn

Telur Man. Utd eiga séns á að landa Bellingham

Sindri Sverrisson skrifar
Jude Bellingham er sennilega á förum frá Dortmund í sumar, fyrir yfir 100 milljónir punda.
Jude Bellingham er sennilega á förum frá Dortmund í sumar, fyrir yfir 100 milljónir punda. Getty/Joachim Bywaletz

Paul Scholes segir líklegast að miðjumaðurinn eftirsótti Jude Bellingham fari til Real Madrid en segir að það hljóti einnig að koma til greina að hann fari til Manchester United.

Scholes, sem er fyrrverandi leikmaður United, tjáði sig um hinn 19 ára gamla Bellingham í beinni útsendingu á BT Sport í gær, vegna leiks United við Sevilla í Evrópudeildinni.

Framtíð Bellingham er í óvissu en búist er við því að hann fari frá Dortmund í sumar fyrir gríðarháa upphæð – svo háa að Liverpool hefur verið sagt hætt að eltast við enska landsliðsmanninn.

Scholes segir að Bellingham gæti gert United að hörkugóðu liði til næstu ára í ljósi þess hve ungur hann sé.

„Ég held að þeir séu eitt af þeim félögum sem koma til greina. Ef að maður færi nokkur ár aftur í tímann þá hefði maður sagt að það væri ekki séns. Jafnvel í byrjun þessarar leiktíðar var það þannig,“ sagði Scholes.

„En núna held ég að þeir hljóti að vera [í baráttunni um að fá Bellingham]. Hann gæti horft á þetta lið og séð að það er á uppleið á næstu árum.

Ég held að hann muni fara til Real Madrid, ég veit ekki alveg af hverju, en ég vona að hann komi hingað. Hann myndi gera United að alvöru liði,“ sagði Scholes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×