Enski boltinn

Brunaútsala hjá Chelsea í sumar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Conor Gallagher og Mason Mount gætu yfirgefið Chelsea eftir tímabilið.
Conor Gallagher og Mason Mount gætu yfirgefið Chelsea eftir tímabilið. getty/Darren Walsh

Chelsea undirbýr brunaútsölu á leikmönnum liðsins í sumar til að koma jafnvægi á fjármálin.

Mirror greinir frá því að Todd Boehly, eigandi Chelsea, ætli að selja allt að níu leikmenn í sumar, þar sem liðið verður ekki í Evrópukeppni á næsta tímabili.

Chelsea hefur keypt leikmenn fyrir sex hundruð milljónir punda síðasta árið, eða síðan Boehly eignaðist félagið. Chelsea er því með risastóran leikmannahóp og þarf að tálga hann fyrir næsta tímabil til að vega á móti viðbúnu tekjutapi.

Meðal leikmanna sem gætu yfirgefið Chelsea í sumar eru Mason Mount, Conor Gallagher, Ruben Loftus-Cheek og Mateo Kovacic. Þá bendir fátt eða ekkert til þess að aukaleikarar eins og Pierre-Emerick Aubameyang og Hakim Ziyech verði áfram hjá Chelsea.

Lundúnaliðið hefur ollið miklum vonbrigðum á tímabilinu og er í 11. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, sautján stigum frá Meistaradeildarsæti. Þá er Chelsea svo gott sem dottið út úr Meistaradeild Evrópu eftir 2-0 tap fyrir Real Madrid í fyrri leiknum í átta liða úrslitum keppninnar á miðvikudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×