Enski boltinn

Martinez ekki meira með og Varane frá næstu vikur

Smári Jökull Jónsson skrifar
Martinez var miður sín þegar hann var borinn af velli í gærkvöldi.
Martinez var miður sín þegar hann var borinn af velli í gærkvöldi. Vísir/Getty

Lisandro Martinez verður ekki meira með Manchester United á tímabilinu vegna meiðslanna sem hann varð fyrir gegn Sevilla í gær. Þá verður Raphael Varane einnig frá keppni næstu vikurnar.

Manchester United og Sevilla gerðu jafntefli í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í gærkvöldi þar sem United liðið skoraði tvö sjálfsmörk á síðustu sex mínútum leiksins. Það voru þó líklega ekki verstu fréttirnar sem stuðningsmennirnir fengu því miðvörðurinn Lisandro Martinez fór meiddur af velli og strax var ljóst að um alvarleg meiðsli var að ræða.

Það fékk svo staðfest í dag því í yfirlýsingu frá Manchester United sem birtist nú í kvöld er greint frá því að Martinez er með brákað bein í rist og verður af þeim sökum frá keppni út tímabilið. Martinez verður klár í slaginn þegar nýtt tímabil fer af stað í sumar.

Þá greindi United einnig frá því að hinn franski Raphael Varane verður sömuleiðis frá keppni næstu vikur en hann fór líka meiddur af velli gegn Sevilla í gær. Luke Shaw gæti snúið til baka í leiknum gegn Nottingham Forest á sunnudag en næstir í röðinni í miðvarðastöður United eru þeir Harry Maguire og Victor Lindelöf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×