Enski boltinn

Brighton sótti þrjú stig á Brúnna og Hodgson með þriðja sigurinn í röð

Smári Jökull Jónsson skrifar
Leikmenn Brighton fagna með stuðningsmönnum sem fylgdu liðinu á Stamford Bridge í dag.
Leikmenn Brighton fagna með stuðningsmönnum sem fylgdu liðinu á Stamford Bridge í dag. Vísir/Getty

Brighton gerði góða ferð til Lundúna í dag þar sem liðið vann 2-1 sigur á Chelsea í ensku úrvalsdeildinni. Crystal Palace vann sinn þriðja sigur í röð undir stjórn Roy Hodgson.

Það hefur ekki verið mikið sældarlíf hjá Frank Lampard síðan hann tók við liði Chelsea á nýjan leik á dögunum. Liðið tapaði 2-0 fyrir Real Madrid í Meistaradeildinni í vikunni og beið lægri hlut gegn Brighton á heimavelli í dag.

Chelsea komst þó yfir í leiknum í dag með marki frá Conor Gallagher. Danny Welbeck jafnaði fyrir hlé en stórskostlega mark frá Julio Enciso tryggði Brighton stigin þrjú. Þetta er sjötti leikur Chelsea í röð án sigurs og þriðji tapleikurinn í röð undir stjórn Frank Lampard.

Roy Hodgson brosir breitt þessa dagana.Vísir/Getty

Það gengur hins vegar betur hjá öðrum endurkomuþjálfara. Roy Hodgson tók við Crystal Palace í lok marsmánauðar og í dag vann liðið sinn þriðja leik í röð eftir að hann tók við.

Eberechi Eze skoraði bæði mörk Palace í 2-0 sigri á útivelli gegn Southampton og liðið er nú komið í nokkuð þægilega fjarlægð frá fallbaráttunni.

Syrtir í álinn hjá Everton

Það gengur hvorki né rekur hjá Everton og liðið tapaði í dag á heimavelli gegn Fulham. Harrison Reed kom Fulham yfir á 22. mínútu eftir sendingu Daniel James en Dwight McNeil jafnaði fyrir hlé. Í síðari hálfleik skoruðu þeir Harry Wilson og áðurnefndur James tvö mörk fyrir Fulham sem vann 3-1 sigur á Goodison Park.

Þá vann Wolves gríðarlega mikilvægan sigur á Brentford á heimavelli sínum. Diego Costa og Hwang Hee-Chan skoruðu mörk liðsins í sitthvorum hálfleiknum og tryggðu 2-0 sigur. Wolves er nú sjö stigum frá fallsæti eftir tvo sigra í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×