Erlent

TikTok bregst við Benadryl-áskorun eftir andlát drengs

Magnús Jochum Pálsson skrifar
TikTok hefur lokað á leit notenda að hinni hættulegu Benadryl-áskorun.
TikTok hefur lokað á leit notenda að hinni hættulegu Benadryl-áskorun. Samsett/Getty

Samfélagsmiðillinn TikTok hefur gefið út tilkynningu um hina svokölluðu Benadryl-áskorun í kjölfar andláts drengs í Ohio sem hafði tekið þátt í áskoruninni á forritinu. Áskorunin gekk út á það að innbyrða óhóflegt magn af ofnæmislyfinu Benadryl en TikTok hefur nú lokað fyrir mögulega leit notenda að áskoruninni.

Á samfélagsmiðlinum TikTok er algengt að rekast á hinar ýmsu áskoranir þar sem notendur keppast við að taka þátt í furðulegustu gjörningum. 

Ein slík áskorun er Benadryl-áskorunin sem gekk út á að notendur innbyrtu sexfaldan ráðlagðan skammt af ofnæmislyfinu Benadryl og tækju afleiðingarnar síðan upp á myndbandi. Einn þeirra fjölmörgu notenda TikTok sem tók þátt í áskoruninni var Jacob Stevens, þrettán ára drengur í Ohio í Bandaríkjunum. 

Að sögn þarlendra fréttamiðla reyndi Stevens við áskorunina á meðan vinir hans tóku hann upp á myndband. Áhrifin voru fljót að gera vart við sig og var hann fluttur með hraði á spítala. Sex dögum síðar var hann látinn.

Hafa lokað á leit að áskoruninni

TikTok gaf út tilkynningu varðandi áskorunina í dag þar sem samfélagsmiðillinn sagðist vera búinn að loka fyrir allar mögulegar leitir notenda að áskoruninni á vefsíðu sinni. Þá sendi fyrirtækið samúðarkveðjur til fjölskyldu Stevens.

Einnig lýsti fyrirtækið því yfir að allt það efni sem hvetji til hættulegrar hegðunar væri bannað á samfélagsmiðlinum. Fyrirtækið sagði að 40 þúsund manna teymi fyrirtækisins vinni stöðugt að því að halda miðlinum öruggum og lausum við hættulegt efni.

Benadryl-áskorunin er hins vegar ekki fyrsta hættulega áskorunin sem verður vinsæl á miðlinum. Fyrir tveimur árum varð svokölluð „Blackout“-áskorun vinsæl meðal notenda TikTok. Hún gekk út á að fólk reyndi að ná alsælutilfinningu með því að loka fyrir öndunarveg sinn og láta líða yfir sig.

Johnson & Johnson, framleiðendur Benadryl, fordæmdu einnig áskorunina sem þau sögðu hættulega. Það ætti alltaf að fylgja leiðbeiningum lyfjaframleiðenda um ráðlagðan skammt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×