Enski boltinn

Arteta: Leikurinn gegn City mun ekki ráða úr­slitum í titil­bar­áttunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikel Arteta hefur gert frábæra hluti með Arsenal í vetur en prófin verða ekki stærri en það sem bíður liðsins í kvöld.
Mikel Arteta hefur gert frábæra hluti með Arsenal í vetur en prófin verða ekki stærri en það sem bíður liðsins í kvöld. Getty/Julian Finney

Flestir líta á leik Manchester City og Arsenal í kvöld sem úrslitaleik um Englandsmeistaratitilinn í ár. Knattspyrnustjóri Arsenal er þó ekki á því að þessi leikur ráði endanlega úrslitum.

Arsenal er búið að gera jafntefli í þremur leikjum í röð og forskot liðsins á Manchester City er nú fimm stig, City-menn eru með þetta í sínum höndum því þeir eiga tvo leiki inni.

Stórleikurinn í kvöld fer fram á heimavelli Manchester City þar sem Arsenal hefur ekki fagnað sigri síðan í janúar 2015. City sló Arsenal út úr enska bikarnum í janúar og er á svaka skriði með ellefu sigra í síðustu tólf leikjum.

„Við vissum það frá byrjun að City væri liðið sem við þyrftum að vinna alveg eins og Liverpool vegna þess hvað þessi tvö lið hafa afrekað undanfarin ár,“ sagði Mikel Arteta á blaðamannafundi fyrir leikinn.

„Við vildum loka bilinu á milli okkar og þeirra og sýna að við getum keppt við þá um titilinn. Við vissum að við þyrftum að fara á Etihad en vitum líka að eftir það bíða okkar fimm erfiðir leikir. Við vitum að leikurinn í kvöld verður risastór leikur en mun hann skilgreina tímabilið okkar. Svarið við því er nei,“ sagði Arteta.

Arteta er á því að Man City-Arsenal leikurinn muni ekki ráða úrslitum í titilbaráttunni því mikið eigi eftir að gerast á lokasprettinum.

„Allir mótherjar krefjast mismunandi hluta af þér en gefa um leið mismunandi tækifæri. Það er engin breyting á því með City en auðvitað eru gæðin í liðin eins mikil og þau finnast í heiminum,“ sagði Arteta.

Arteta er að reyna að létta pressunni af sínum mönnum sem hafa litið út fyrir það í síðustu leikjum að þeir séu að fara á taugum. Í tveimur af þessum jafnteflum hefur liðið misst niður tveggja marka forystu og í síðasta leik byrjaði liðið hörmulega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×