Manchester City pakkaði Arsenal saman í toppslagnum á Eng­landi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mönnum var heitt í hamsi enda mikið undir.
Mönnum var heitt í hamsi enda mikið undir. EPA-EFE/ADAM VAUGHAN

Englandsmeistarar Manchester City unnu Arsenal 4-1 á Etihad-vellinum í Manchester í uppgjöri toppliða ensku úrvalsdeildarinnar.

Mikil spenna ríkti fyrir leik kvöldsins enda talað um að þetta væri leikurinn sem gæti skorið úr um hvort liðið yrði Englandsmeistari. Ef það er raunin þá verður bikarinn áfram í Manchester-borg en heimamenn í City fóru hamförum í fyrri hálfleik.

Leikurinn var aðeins sjö mínútna gamall þegar Kevin De Bruyne skoraði með glæsilegu skoti niðri í hægra hornið eftir snarpa sókn heimamanna. Norski framherjinn Erling Braut Håland lagði boltann á De Bruyne í aðdraganda marksins en venjulega er það öfugt, sá belgíski leggur upp á þann norska.

Það virtist sem Skytturnar myndu sleppa með að vera aðeins einu marki undir en toppliðið skapaði sér ekki stakt færi í fyrri hálfleik. Þeim varð hins vegar ekki að ósk sinni en í uppbótartíma tók De Bruyne fast leikatriði sem endaði með því að John Stones stangaði boltann í netið.

Stones gat loks fagnað eftir að myndbandsdómari hafði skoðað markið.EPA-EFE/ADAM VAUGHAN

Flaggið fór á loft en eftir að myndbandsdómari leiksins skoðaði markið betur kom í ljós að Stones var réttstæður. Markið því bæði gott og gilt. Staðan 2-0 í hléinu og eftir aðeins níu mínútna leik í síðari hálfleik var hún orðin 3-0.

Aftur skoraði De Bruyne með góðu skoti eftir sendingu frá Håland. Að þessu sinni skaut hann boltanum á milli fóta Rob Holding og leikurinn svo gott sem búinn þó enn væru rúmlega 40 mínútur til leiksloka.

Téður Holding minnkaði muninn þegar fjórar mínútur voru til loka venjulegs leiktíma. Þar sem Pep Guardiola, þjálfari Man City, ákvað að láta Håland klára leikinn þá hlaut að koma að því að hann kæmi boltanum í netið.

Það gerði hann þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma og lauk leiknum með 4-1 sigri Englandsmeistara Manchester City. Með því setti hann með í 20 liða deild en Håland hefur nú skorað 33 mörk í ensku úrvalsdeildinni.

Skytturnar eru enn á toppi deildarinnar með 75 stig en liðið hefur nú spilað fjóra deildarleiki án sigurs. Man City er með 73 stig í 2. sætinu en á tvo leiki til góða.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira