Enski boltinn

Æfur Moyes vill afsökunarbeiðni frá VAR

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
David Moyes var ekki sáttur með dómgæsluna gegn Liverpool.
David Moyes var ekki sáttur með dómgæsluna gegn Liverpool. getty/Julian Finney

David Moyes, knattspyrnustjóri West Ham United, var æfur eftir tapið fyrir Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í gær og krafðist þess að fá afsökunarbeiðni frá dómarayfirvöldum vegna þess að Hamrarnir fengu ekki vítaspyrnu í leiknum.

Liverpool vann leikinn með tveimur mörkum gegn einu. West Ham vildi fá vítaspyrnu undir lok leiks þegar boltinn fór í hönd Thiagos inni í vítateig Liverpool. Ekkert var dæmt og dómarinn Chris Kavanagh skoðaði atvikið ekki á myndbandi.

„VAR sýndi okkur enga virðingu,“ sagði Moyes reiður. „Það er erfiðast að kyngja vanvirðingunni frá VAR, að dómarinn hafi ekki verið látinn skoða þetta. Það kom mér á óvart. Einhver í VAR-herberginu hafði ekki næga fótboltaþekkingu til að skilja að þetta væri tæpt.“

Brighton hefur tvisvar sinnum fengið afsökunarbeiðni frá dómarayfirvöldum á tímabilinu og Brighton einu sinni vegna mistaka dómara. Moyes vill að dómarayfirvöld biðji Hamrana afsökunar.

„Þeir gætu þurft að biðja þetta félag afsökunar því við erum að reyna að fá stig í ensku úrvalsdeildinni,“ sagði Moyes.

West Ham veitir ekki af stigum enda í fallbaráttu. Hamrarnir eru í 14. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 34 stig, fimm stigum frá fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×