Newcastle styrkti stöðu sína í þriðja sæti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Callum Wilson skoraði tvö fyrir Newcastle í kvöld.
Callum Wilson skoraði tvö fyrir Newcastle í kvöld. James Gill - Danehouse/Getty Images

Newcastle vann öruggan 4-1 útisigur er liðið heimsótti Everton í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

Gengi Everton hefur ekki verið upp á marga fiska undanfarnar vikur og liðið situr í fallsæti eftir að hafa aðeins unnið einn af síðustu níu deildarleikjum. Það var því ljóst að verkefni kvöldsins yrði erfitt, enda hefur Newcastle verið á miklu skriði undanfarið.

Callum Wilson kom gestunum í Newcastle yfir með marki eftir tæplega hálftíma leik, en það reyndist eina mark fyrri hálfleiksins og staðan var því 1-0, Newcastle í vil, þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Joelinton tvöfaldaði svo forystu gestanna á 72. míníutu áður en Callum Wilson bætti öðru marki sínu við þremur mínútum síðar.

Dwight McNeil minnkaði svo muninn fyrir heimamenn þegar um tíu mínútur voru til leiksloka, en varamaðurinn Jacob Murphy endurheimti þriggja marka forskot gestanna stuttu síðar og þar við sat.

Niðurstaðan því öruggur 4-1 sigur Newcastle sem situr í þriðja sæti deildarinnar með 62 stig eftir 32 leiki og liðið er komið langleiðina með að tryggja sér sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili. Everton situr hins vegar í 19. sæti deildarinnar með 28 stig eftir 33 leiki, tveimur stigum frá öruggu sæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira