Enski boltinn

Allar­dyce á leið aftur í ensku úr­vals­deildina

Sindri Sverrisson skrifar
Stóri Sam Allardyce virðist vera á leið aftur í ensku úrvalsdeildina.
Stóri Sam Allardyce virðist vera á leið aftur í ensku úrvalsdeildina. Getty/Stu Forster

Útlit er fyrir að knattspyrnustjórinn Sam Allardyce snúi afar óvænt aftur í ensku úrvalsdeildina og taki við Leeds sem hefur verið í frjálsu falli undanfarnar vikur.

Samningsviðræður á milli Allardyce og Leeds eru nokkuð langt komnar, samkvæmt meðal annars The Guardian, og ef ekkert óvænt kemur upp á þá mun þessi 68 ára gamli stjóri taka við Leeds af Javi Gracia.

Gracia var ráðinn í febrúar, eftir brottrekstur Jesse March, og byrjaði vel en Leeds er hins vegar í bullandi fallhættu núna eftir fjögur töp í síðustu fimm leikjum.

Samkvæmt The Guardian mun Gracia kveðja leikmenn og annað starfsfólk á Elland Road nú í morgunsárið og í kjölfarið ætti Allardyce svo að geta tekið til sinna mála. Hann þarf að laga varnarleikinn hjá liðinu sem hefur fengið á sig 18 mörk í síðustu fimm leikjum.

Allardyce er þekktur fyrir að bjarga liðum frá falli en mistókst það þó í síðasta starfi sínu, hjá West Bromwich Albion fyrir tveimur árum. Allardyce, sem var landsliðsþjálfari Englands í afar skamman tíma, hefur einnig þjálfað lið á borð við Newcastle, West Ham, Sunderland, Everton og Crystal Palace.

Leeds er í 17. sæti sem stendur, fyrir ofan fallsæti vegna betri markatölu en Nottingham Forest. Liðið á krefjandi leikjadagskrá fyrir höndum því það mætir Manchester City, Newcastle, West Ham og Tottenham í síðustu fjórum leikjum sínum á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×