Enski boltinn

Stóri Sam mættur til að bjarga Leeds: „Tvær sekúndur að segja já“

Sindri Sverrisson skrifar
Sam Allardyce er orðinn knattspyrnustjóri Leeds.
Sam Allardyce er orðinn knattspyrnustjóri Leeds. lufc.co.uk

Enska knattspyrnufélagið Leeds tilkynnti í dag að Javi Gracia hefði verið rekinn, eftir að hafa aðeins stýrt liðinu í tólf leikjum, og að „Stóri Sam“ Allardyce hefði verið ráðinn í hans stað.

Allardyce mun stýra Leeds í þeim fjórum leikjum sem liðið á eftir á tímabilinu og ekkert má út af bregða svo að liðið haldi sér uppi í deildinni. Leeds er í 17. sæti eftir aðeins eitt stig úr síðustu fimm leikjum og hangir fyrir ofan Nottingham Forest á markatölu auk þess að vera bara stigi fyrir ofan Everton. 

Allardyce þekkir það vel að taka við liði þegar tímabil er í gangi og aldrei hafa þau lið, alls fimm talsins, endað neðar en þau voru þegar Allardyce tók við.

Fyrsti leikurinn undir stjórn Allardyce er gegn Manchester City á útivelli á laugardaginn en Leeds á svo eftir heimaleik við Newcastle, útileik við West Ham og heimaleik við Tottenham.

Allardyce verður með Karl Robinson, fyrrverandi stjóra MK Dons, Charlton og Oxford United, sér til aðstoðar. Í samtali við Talksport sagði hann það hafa tekið sig „tvær sekúndur að segja já“ við starfinu.

„Ég var í sjokki. Ég bjóst aldrei við að þetta myndi gerast á þessum tímapunkti á leiktíðinni. Ég hélt að það myndi engin vinna bjóðast.

Ég hefði alveg verið til í meiri tíma en við höfum fjóra leiki og vonandi tekst mér að halda þessu stórkostlega félagi í úrvalsdeildinni,“ sagði Allardyce.

Victor Orta var rekinn úr starfi yfirmanns knattspyrnumála hjá Leeds en hann var ósammála stjórn félagsins um Gracia. Spánverjinn Gracia hafði verið ráðinn eftir að Jesse Marsch var rekinn í febrúar, innan við ári eftir að hafa verið ráðinn í stað Marcelo Bielsa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×