Haaland sló markametið þegar City hirti toppsætið á nýjan leik

Jón Már Ferro skrifar
Erling Braut Haaland fagnar marki númer þrjátíu og fimm í ensku úrvalsdeildinni.
Erling Braut Haaland fagnar marki númer þrjátíu og fimm í ensku úrvalsdeildinni. Vísir/Getty

Norðmaðurinn Erling Braut Haaland sló markamet ensku úrvalsdeildarinnar þegar hann skoraði annað mark Manchester City í öruggum sigri liðsins á West Ham í kvöld. City er nú efst í deildinni á nýjan leik.

Haaland hefur verið magnaður á tímabilinu til þessa en fyrir leikinn í kvöld hafði hann skorað þrjátíu og fjögur mörk á tímabilinu, jafn mörg og kempurnar Alan Shearer og Andrew Cole hafa áður gert.

Manchester City gekk hins vegar illa að brjóta vörn West Ham á bak aftur í fyrri hálfleiknum. Leikmenn West Ham vörðust vel og sáu til þess að staðan í hálfleik var markalaus.

Í síðari hálfleik brast hins vegar stíflan. Nathan Ake skoraði með skalla strax á 50. mínútu og Erling Haaland sló síðan metið áðurnefnda þegar hann kláraði frábærlega framhjá Lukas Fabianski í marki gestanna á 70. mínútu leiksins. Þetta er mark númer þrjátíu og fimm á leiktíðinni, það mesta sem nokkur leikmaður hefur skorað á einu tímabili.

Lið City var hins vegar ekki hætt. Phil Foden bætti þriðja markinu við skömmu fyrir leikslok og tryggði öruggan sigur. Með sigrinum fer Manchester City aftur í efsta sæti deilarinnar, liðið er nú einu stigi á undan Arsenal og á þar að auki leik til góða.

West Ham er í 15. sæti deildarinnar, fjórum stigum fyrir ofan fallsæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira