Enski boltinn

„Haaland er einstakur“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Pep var ánægður í leikslok.
Pep var ánægður í leikslok. Vísir/Getty

Erling Braut Haaland sló markametið í ensku úrvalsdeildinni í kvöld þegar hann skoraði þrítugasta og fimmta mark sitt á leiktíðinni í 3-0 sigri Manchester City gegn West Ham. Pep Guardiola segir Norðmanninn einstakan leikmann.

Manchester City tyllti sér á topp ensku úrvalsdeildinnar á nýjan leik með öruggum 3-0 sigri á West Ham á heimavelli sínum í kvöld. Pep Guardiola, knattspyrnustjóri City, var ánægður með sigurinn.

„Allir leikir eru erfiðir, það var svo kalt og hvasst í dag. Við spiluðum ekki illa en strúkturinn á liðinu var ekki frábær. Við skoruðum ekki í upphafi en héldum áfram, ég er mjög ánægður nú þegar fimm leikir eru eftir,“ sagði Guardiola í viðtali við Sky eftir leik en öll mörk City í kvöld komu í síðari hálfleiknum.

„Það er erfitt að brjóta West Ham niður. Við reyndum ólíkar aðferðir á hægri og vinstri kanti. Menn voru að tapa boltanum og virkuðu örvæntingarfullir og við þurftum að hætta því. Við bökkuðum aðeins í kvöld en ekki mikið og náðum að skapa færi. Þetta eru þrjú stig og við höldum áfram.“

„Þetta er ótrúlegt“

Erling Braut Haaland sló markamet ensku úrvalsdeildarinnar þegar hann skoraði annað mark City í leiknum. Markið er það þrítugasta og fimmta hjá Norðmanninum á leiktíðinni og slær hann því met Alan Shearer og Andrew Cole sem mest höfðu skorað þrjátíu og fjögur mörk á einu tímabili.

„Þetta er ótrúlegt. Hann hefur skorað svo mörk mikilvæg mörk til að vinna leiki, við erum svo ánægðir. Hann er einstök manneskja og hann er svo sérstakur. Hann átti heiðursvörð skilinn því þetta er ótrúlegt afrek. Einhvern annan dag gæti hann slegið sitt eigið met. Hann hefur skorað mörg mörk.“

Þriðja og síðasta mark City í kvöld var þúsundasta markið undir stjórn Guardiola sem tók við stjórn félagsins árið 2016.

„Auðvitað er ég stoltur. Mark er skemmtilegt augnablik fyrir okkar stuðningsmenn og þeir hafa notið þess í þúsund skipti. Við höldum áfram.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×