Enski boltinn

Stuðningsmenn Liverpool sendu nýjum konungi kaldar kveðjur

Smári Jökull Jónsson skrifar
Nýkrýndur konungur er ekki hátt skrifaður hjá stuðningsmönnum Liverpool.
Nýkrýndur konungur er ekki hátt skrifaður hjá stuðningsmönnum Liverpool. Vísir/Getty

Hinn nýkrýndi konungur Bretlands fékk kaldar kveðjur frá stuðningsmönnum Liverpool á leik liðsins gegn Brentford á Anfield í dag.

Karl Bretakonungur var krýndur í dag við heljarinnar viðhöfn í Lundúnum. Á leikjum ensku úrvalsdeildarinnar var þjóðsöngurinn spilaður áður en leikirnir hófust til heiðurs Karli og Camillu drottningu.

Á Anfield Road í Liverpool fékk Karl hins vegar kaldar kveðjur. Áhorfendur voru með skilti þar sem búið var að krota yfir andlit Karls og skrifa skilaboð eins og „Ekki minn konungur“ og eins héldu þeir á myndum af Kenny Dalglish sem í mörg ár hefur haft gælunafnið „King Kenny“ hjá stuðningsmönnum Liverpool.

Áhorfendur héldu uppi myndum af Kenny Dalglish sem í mörg ár hefur haft gælunafnið King Kenny meðal stuðningsmanna Liverpool.Vísir/Getty

Þegar þjóðsöngurinn var spilaður púuðu síðan áhorfendur. Sú ákvörðun að spila þjóðsönginn fyrir leik var gagnrýnd af mörgum þar sem margir íbúar í Liverpool og nágrenni þykir ekki mikið til konungsfjölskyldunnar og breska ríkisins koma og finnst yfirvöld hafa komið illa fram við ítrekuð tilfelli.

Á einu skiltanna sem áhorfendur voru með stóð „You can stick your royal family up your arse“ sem segir hvaða hugur er borinn til hins nýkrýnda konungs.

Liverpool bar sigur úr býtum í leiknum í dag eftir sigurmark Mohamed Salah. Þetta var hundraðasta markið sem Salah skorar á Anfield.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×