Enski boltinn

Meistara­deildar­kapp­hlaup New­cast­le, Man. Utd og Liver­pool lítur svona út

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcus Rashford hjá Manchester United fer fram hjá Liverpool manninum Trent Alexander Arnold.
Marcus Rashford hjá Manchester United fer fram hjá Liverpool manninum Trent Alexander Arnold. Getty/Ash Donelon

Á Liverpool enn þá möguleika á Meistaradeildarsæti? Flestir héldu að möguleikinn væri úti fyrir nokkrum vikum en síðan hefur Liverpool unnið sex deildarleiki í röð.

Það er þó ekki nóg því Liverpool þurfti einnig að treysta á liðin fyrir ofan þá myndu misstíga sig. Það hefur gerst. Bæði Newcastle United og Manchester United töpuðu í síðustu umferð og United hefur tapað tveimur í röð sem og aðeins unnið einn af síðustu fjórum leikjum.

Liverpool er nú allt í einu bara einu stigi á eftir Manchester United og þremur stigum á eftir Newcastle. Bæði liðin eiga vissulega leik inni á Liverpool en þetta þýðir að það verður spenna í baráttunni um tvö laus sæti í Meistaradeildinni.

Newcastle er með langbestu markatöluna af liðunum þremur en þar stendur hins vegar Manchester United langverst. United hefur aðeins átta mörk í plús á sama tíma og Newcastle er 32 mörk í plús og Liverpool er 25 mörk í plús.

Þegar við skoðum hvernig leikjadagskráin lítur út í þessu Meistaradeildarkapphlaupi Newcastle, Man. Utd og Liverpool sést að liðin standa ekki jafnvel.

Manchester United á þannig eftir þrjá heimaleiki af þessum fjórum sem liðið á eftir að spila. Heimaleikir liðsins eru á móti Wolves, Chelsea og Fulham.

Liverpool er aftur á móti á útivelli í tveimur af þremur leikjum sínum. Liverpool á bæði eftir að mæta Leicester og Southampton á útivelli en þau lið eru að berjast fyrir lífi sínu í deildinni.

Newcastle á eftir bæði tvo heimaleiki og tvo útileiki. Heimaleikirnir eru á móti Brighton og Leicester en liðið mætir svo Leeds og Chelsea á útivelli.

Stuðningsmenn Liverpool vonast eflaust eftir því að Frank Lampard sé búinn að koma Chelsea í ganga því bæði Newcastle og Manhester United eiga eftir að spila við Chelsea á lokakaflanum.

Hér fyrir neðan má sjá yfirlit yfir lokakaflinn í þessu kapphlaupi Newcastle, Man. Utd og Liverpool um tvö laus sæti í Meistaradeildinni 2023-24.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×