Enski boltinn

Segja að Glazer fjölskyldan hafi valið Íslandsvininn til að kaupa Man. United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Jim Ratcliffe fagnaði sigri í kapphlaupinu um Manchester United.
Sir Jim Ratcliffe fagnaði sigri í kapphlaupinu um Manchester United. Getty/ Bryn Lennon

Íslandsvinurinn Sir Jim Ratcliffe þykir nú líklegastur sem næsti meirihluta eigandi Manchester United en ensk blöð slógu því upp í morgun að tilboð hans sé það tilboð sem núverandi eigendur eru spenntastir fyrir.

Sun segir að Glazer fjölskyldan sé nú klár í það að tilkynna það mjög fljótlega að Sir Jim Ratcliffe og fyrirtækið hans Ineos hafi borið sigur úr býtum í tilboðakapphlaupinu við Katarbúana.

Mikið hefur verið rætt og skrifað um hugsanlega sögu á Manchester United enda flestir stuðningsmenn félagsins mjög áhugasamir um að losna við Glazer fjölskylduna út úr klúbbnum.

Tlboð frá Hamad Al Thani og Köturum þótti líklegt til að hafa betur til að byrja með en það lítur út fyrir að Ratcliffe hafi komið með gott útspil.

Ratcliffe er mikill fótboltaáhugamaður og harður stuðningsmaður Manchester United. Við Íslendingar þekkjum vel til hans enda á hann margar landareignir á Austurlandi.

Það fylgir sögunni að Radcliffe hafi einnig boðið Glazer fjölskyldunni að eiga áfram einhvern hlut í félaginu en að Katarbúarnir hafi viljað kaupa allt félagið. Samkvæmt fréttum Sun þá munu Joel og Avram ekki selja sín hlutabréf og verða því áfram hluti af eigendahóp félagsins. Hinir fjórir fjölskyldumeðlimirnir ætla hins vegar að selja sín bréf í félaginu.

Alls buðu áhugasamir kaupendur þrisvar í félagið en síðasta tilboðið kom í aprílmánuði.

Það er mikil verk fram undan hjá verðandi eigendum félagsins enda þarf meðal annars að gera miklar endurbætur á Old Trafford leikvanginum sem og á æfingasvæði félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×