Enski boltinn

Arsenal að ganga frá nýjum samningum við lykil­leik­menn

Aron Guðmundsson skrifar
Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, hlýtur að vera ánægður með það hversu vel gengur að ganga frá nýjum samningum við helstu leikmenn félagsins.
Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, hlýtur að vera ánægður með það hversu vel gengur að ganga frá nýjum samningum við helstu leikmenn félagsins. Vísir/Getty

Forráðamenn enska úrvalsdeildarfélagsins Arsenal hafa haft í nægu að snúast undanfarið. Arsenal hefur verið í toppbáráttu í deildinni allt yfirstandandi tímabil og lykilleikmenn félagsins eru við það að skrifa undir nýja langtímasamninga. 

The At­hletic greinir frá því í dag að Aaron Rams­da­le, aðal­mar­k­vörður Arsenal, sé við það að skrifa undir nýjan lang­tíma­samning við fé­lagið.

Rams­da­le, sem gekk í raðir Arsenal sumarið 2021, hefur staðið sig frá­bær­lega hjá fé­laginu og vilja for­ráða­menn þess verð­launa hann með nýjum samningi.

Aaron Ramsdale hefur slegið í gegn hjá Arsenal Vísir/Getty

Nú­gildandi samningur Rams­da­le við Arsenal gildir til ársins 2026 og felur í sér á­kvæði þess efnis að hægt sé að fram­lengja hann enn frekar. For­ráða­menn Arsenal vilja hins vegar frekar veita Ramda­le nýjan samning.

Þá hefur stjörnu­leik­maður Arsenal, hinn 21 árs gamli Buka­yo Saka, einnig sam­þykkt að skrifa undir nýjan samning hjá fé­laginu.

Bukayo Saka er aðalmaðurinn hjá Skyttunum í ArsenalVísir/Getty

Saka hefur verið besti leik­maður Arsenal undan­farin ár og voru farnar að berast sögu­sagnir þess efni að önnur lið væru farin að horfa hýrum augum til hans.

Leik­maðurinn hefur hins vegar á­kveðið að semja að nýju við upp­eldis­fé­lag sitt en nú­gildandi samningur hans við fé­lagið á að renna út á næsta ári.

Þá samdi brasilíski sóknar­maðurinn Gabriel Martinelli, sem leikið hefur lykil­hlut­verk í liði Arsenal á yfir­standandi tíma­bili, að nýju við fé­lagið fyrr á árinu.

Gabriel Martinelli hefur nú þegar skrifað undir nýjan langtímasamning við Arsenal Vísir/Getty

Nýji samningur Martinelli rennur út árið 2028 en þessi 21 árs gamli leik­maður hefur leikið 129 leiki fyrir aðal­lið Arsenal, skorað 33 mörk og gefið 19 stoð­sendingar.

Arsenal eru sem stendur í 2. sæti ensku úr­vals­deildarinnar, einu stigi á eftir topp­liði Manchester City sem á einnig leik til góða á Skytturnar. Arsenal á eftir að leika þrjá leiki í ensku úr­vals­deildinni á yfir­standandi tíma­bili. Manchester City fjóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×