Þetta fær Christian Horner, liðsstjóra Red Bull Racing, til þess að hugsa með sér hvað keppinautar liðsins í Ferrari og Mercedes hafi verið að gera milli tímabila.
Red Bull Racing er ekki óvant árangri í Formúlu 1. Sebastian Vettel átti magnaða sigurgöngu með liðinu hér fyrir nokkrum árum síðan og nú hefur Hollendingurinn Max Verstappen tekið við keflinu.
„Við höfum aldrei upplifað svona byrjun á tímabili,“ sagði Horner í viðtali við Sky Sports. „Við höfum verið að velta því fyrir okkur hvað hin liðin séu eiginlega að gera.“
Red Bull Racing hafi tekið hefðbundin skref fram á við milli tímabila.
„Því er þetta eiginlega meiri spurning um það hvert Ferrari og Mercedes hafi farið.“
Horner segir þó alltaf pláss fyrir bætingar. Red Bull Racing þurfi að halda sér við efnið þrátt fyrir að byrjunin á tímabilinu sjái til þess að liðið teljist ansi líklegt til að hampa báðum heimsmeistaratitlunum sem í boði eru í lok tímabils.
Eftir fyrstu fimm keppnishelgar tímabilsins í Formúlu 1 situr Red Bull Racing með 122 stiga forskot á Aston Martin á toppi stigakeppni bílasmiða.
Þá er ökumaður liðsins, Max Verstappen, sem einnig er heimsmeistari síðustu tveggja tímabila á toppi stigakeppni ökumanna með 119 stig. Næst á eftir honum kemur liðsfélagi hans hjá Red Bull Racing, Sergio Perez með 105.