Formúla 1

Ferrari undir­býr tug­milljóna til­boð í Hamilton

Aron Guðmundsson skrifar
Mun Hamilton aka við hlið Charles Leclerc hjá Ferrari á næsta tímabili?
Mun Hamilton aka við hlið Charles Leclerc hjá Ferrari á næsta tímabili? Vísir/Getty

Svo gæti farið að sjö­faldi For­múlu 1 heims­meistarinn Lewis Hamilton, öku­maður Mercedes skipti yfir til keppi­nautanna í Ferrari fyrir næsta tíma­bil.

Daily Mail segist hafa heimildir fyrir því að Ferrari sé nú að undir­búa til­boð að virði 40 milljóna punda í Hamilton en samningur hans við Mercedes rennur út eftir yfir­standandi tíma­bil.

Liðs­stjóri Mercedes, Þjóð­verjinn Toto Wolff, hefur áður látið hafa það eftir sér að samningur Mercedes við Hamilton verði fram­lengdur og að liðið sé ekki með plan B fari svo að Bretinn sigur­sæli á­kveði að söðla um.

Hins vegar virðist lítið hafa þokast í við­ræðum Mercedes við Hamilton undan­farið. Að sama skapi hefur frammi­staða liðsins hingað til á tíma­bilinu ekki lofað góðu en von er á upp­færslum á bíl liðsins á komandi keppnis­helgi For­múlu 1 í Móna­kó.

Heimildir Daily Mail herma að sam­töl innan her­búða Ferrari, þess efnis að fá Hamilton til liðsins, séu komnar á efsta stig innan liðsins. For­esti Ferrari, Johan Elkann, hafi meira að segja átt sam­töl við Hamilton.

Hamilton hefur áður verið orðaður við Ferrari. Árið 2019 flugu hátt sögu­sagnir um að Bretinn myndi ganga til liðs við Ítalska risann.

Báðir öku­menn Ferrari, þeir Charles Leclerc og Car­los Sainz, eru með samning við liðið fyrir næsta tíma­bil. Hug­myndir Ferrari snúa hins vegar að því að Hamilton muni koma inn í stað Car­los Sainz og mynda öku­mann­steymi með Leclerc á næsta tíma­bili.

Hins vegar eru stjórn­endur Ferrari einnig með þann mögu­leika í kollinum að bjóða Leclerc til Mercedes í skiptum fyrir Hamilton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×