Um er að ræða auglýsingu fyrir öryggisvesti á vegum Brokk, netverslunar hestamannsins. Báðir eru þeir Hilmir Snær og Benedikt Erlings miklir hestamenn og hafa verið um árabil svo athygli hefur oft vakið.
Árið 2008 riðu þeir félagar til að mynda saman frá hesthúsahverfinu Gusti í Kópavogi og niður í Hallargarð við tjörnina í Reykjavík í gjörningi þar sem þeir minntu borgarfulltrúa á að tryggja áfram aðgang almennings og þá sérstaklega barna að hestaréttinni og garðinum eftir sölu borgarinnar á Frírkirkjuvegi.
Í auglýsingu Brokk slá þeir félagar á öllu léttari strengi og endurgera einn af þekktari sketsum Fóstbræðra, sem sýndir voru á Stöð 2 á tíunda áratugnum. Sketsinn þekkja langflestir en hann var að finna í allra fyrstu seríunni af grínþáttunum sem sýnd var í sjónvarpi árið 1997.
Þar gerir persóna Hilmis Snæs hosur sínar grænar fyrir persónu Benna Erlings á kómískan hátt við dræmar undirtekir hins síðarnefnda. Upprunalega sketsinn má horfa á hér og uppfærða útgáfu neðst í fréttinni.
Fóstbræður hafa svo sannarlega minnt á það hversu rækilega þeir hafa stimplað sig inn í þjóðarvitundina en Jóhannes Haukur Jóhannesson sagði til að mynda einn frægasta brandara þáttanna nýverið í aukahlutverki sínu í hinum heimsfrægu dramaþáttum Succession sem sýndir eru á Stöð 2.