Enski boltinn

„Próf­raun fyrir okkur og við stóðumst hana ekki“

Aron Guðmundsson skrifar
Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United hughreystir leikmann sinn, miðjumanninn Fred.
Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United hughreystir leikmann sinn, miðjumanninn Fred. Vísir/Getty

Erik ten Hag, knatt­spyrnu­stjóri Manchester United, var að vonum von­svikinn með að lúta í lægra haldi gegn ná­grönnum liðsins í Manchester City í úr­slita­leik enska bikarsins á Wembl­ey í dag.

Tvö mörk frá Ilkay Gundogan, miðju­manni Manchester City, sáu til þess að liðið heldur heim með enska bikar­meistara­titilinn og getur með sigri á Inter Milan í úr­slita­leik Meistara­deildar Evrópu í næstu viku, unnið þrennuna.

Loka­tölur á Wembl­ey í dag urðu 2-1 Manchester City í vil. Bruno Fernandes skoraði mark Manchester United í leiknum.

„Við erum niður­brotnir og von­sviknir, að sjálf­sögðu, en ég er stoltur af mínu liði,“ sagði Erik ten Hag í við­tali við BBC eftir tapið gegn Manchester City í úr­slita­leiknum.

„Við gerðum vel en fengum hins vegar á okkur tvö mjög auð­veld mörk, en vorum með í leiknum. Þegar að þú spilar gegn Manchester City og færð ekki á þig mark úr opnum leik, þá er það stórt hrós á þitt lið en þegar að þú færð á þig svona mörk eins og í dag þá eru það mikil von­brigði.“

Hann segir sína leik­menn hafa sýnt þraut­seigju og karakter.

„Við vitum að fyrir okkur er löng leið fram­undan en þessi reynsla mun bara gera okkur betri. Þetta var próf­raun fyrir okkur, við stóðumst hana ekki en getum tekið marga já­kvæða punkta frá þessum leik inn í næsta tíma­bil.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×