Enski boltinn

Neyddust til að loka United-búðinni á Old Traf­ford vegna mót­mæla

Smári Jökull Jónsson skrifar
Stuðningsmenn United mótmæla fyrir utan Old Trafford í morgun.
Stuðningsmenn United mótmæla fyrir utan Old Trafford í morgun. Vísir/Getty

Loka þurfti félagsverslun Manchester United á morgun vegna mótmæla gegn eigendum félagsins. Stuðningsmenninir eru ósáttir með hversu lengi salan á félaginu tekur.

Manchester United hefur verið í söluferli undanfarna mánuði en flestir stuðningsmenn enska stórliðsins geta ekki beðið eftir að losna við Glazer-fjölskylduna sem eigendur félagsins. Allt bendir til þess að katarski sjeikinn Jassim bin Hamad al-Thani verði næsti eigandi liðsins en viðræður hans og Glazer-fjölskyldunnar hafa tekið langan tíma.

Og nú virðist sem þolinmæði stuðningsmannanna sé á þrotum. Í morgun safnaðist mikill fjöldi þeirra saman fyrir utan verslun félagsins á Old Trafford þar sem nýbyrjað var að selja keppnistreyju United fyrir næsta tímabil.

Lætin fyrir utan Old Trafford urðu til þess að loka þurfti versluninni um tíma. Í gær tilkynnti stuðningsmannahópurinn MUST (Manchester United Supporters´ trust) að mótmælin færu fram í dag.

„Yfirgnæfandi meirihluti stuðningsmanna United vill að þetta söluferli taki enda og vill að klúbbinn verði seldur alfarið. Þetta er miðað við okkar rannsóknir,“ sagði í yfirlýsingu hópsins.

Glazer fjölskyldan hefur skuldsett United gífurlega en Sjeik Al Thani hefur sagt að hann muni þurrka upp allar skuldir félagsins og byggja upp heimavöll félagsins sem ekki hefur fengið upplyftingu í fjölda ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×