Enski boltinn

De Gea yfir­gefur Man United: „Manchester verður alltaf í mínu hjarta“

Smári Jökull Jónsson skrifar
David De Gea hefur verið markvörður Manchester United síðan árið 2011.
David De Gea hefur verið markvörður Manchester United síðan árið 2011. Vísir/Getty

David De Gea hefur birt pistil á Twitter þar sem hann kveður stuðningsmenn Manchester United. Þar með er endanlega komið á hreint að Spánverjinn mun spila fyrir nýtt félag á næstu leiktíð.

Framtíð David De Gea hjá Manchester United hefur verið í mikilli óvissu en samningur hans við félagið rann út á dögunum. De Gea og United hafa átt í viðræðum um nýjan samning síðustu mánuði en viðræðurnar voru settar á ís fram yfir brúðkaup hans nú á dögunum.

United hefur verið orðað við Andre Onana, markvörð Inter, síðustu daga og í morgun bárust fregnir af því að kamerúnski landsliðsmaðurinn færðist sífellt nær því að skrifa undir við enska stórliðið.

Nú er hins vegar ljóst að De Gea mun ekki spila fyrir Manchester United á næstu leiktíð. Hann birti í dag pistil á Twitter þar sem hann kveður stuðningsmenn United og þakkar fyrir sinn tíma hjá félaginu.

„Við höfum afrekað margt síðan minn kæri Sir Alex Ferguson fékk mig til þessa félags. Ég hef verið stoltur í hvert einasta skipti sem ég hef klæðst treyjunni, að leiða liðið áfram og koma fram sem fulltrúi þess, stærsta félags í heimi,“ skrifar De Gea.

„Manchester verður alltaf í mínu hjarta, Manchester hefur mótað mig og mun aldrei yfirgefa mig,“ skrifar De Gea ennfremur.

David De Gea hefur verið leikmaður Manchester United síðan árið 2011 og á að baki yfir 400 leiki fyrir félagið. Hann hefur þar að auki leikið 45 landsleiki fyrir Spán.

Erik Ten Hag, knattspyrnustjóri United, hrósar De Gea í hástert.

„Að hafa unnið verðlaun sem leikmaður ársins bæði valið af stuðningsmönnum og liðsfélögum, bæði verðlaun í fjórgang, sýnir gæði frammistöðu hans og hans verður alltaf minnst sem einn af bestu markvörðum í sögu þessa félags.“

„Persónulega er ég þakklátur fyrir þau 25 skipti sem hann hélt hreinu á síðsta ári og fyrir almennt framlag á vellinum á mínu fyrsta ári hjá félaginu. Allir leikmennirnir og starfsfólkið sendir honum bestu óskir á næsta skrefi hans á frábærum ferli.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×