Enski boltinn

Fjórðu kaup Totten­ham í sumar stað­fest

Smári Jökull Jónsson skrifar
Solomon í treyju númer 11 hjá Ísrael í landsleiknum á Laugardalsvelli á síðasta ári.
Solomon í treyju númer 11 hjá Ísrael í landsleiknum á Laugardalsvelli á síðasta ári. Vísir/Hulda Margrét

Tottenham hefur gengið frá kaupunum á vængmanninum Manor Salomon frá Shaktar Donetsk. Írsaelinn skrifar undir fimm ára samning við Lundúnaliðið.

Salomon eru fjórðu kaup Tottenham í sumar en félagið hafði áður samið við James Maddison, markvörðinn Guglielmo Vicario auk þess að ganga frá kaupum á Dejan Kulusevski sem hafði verið á láni hjá félaginu frá Juventus.

Solomon er 23 ára gamall og lék með Fulham á síðasta tímabili þar sem hann skoraði fimm mörk í 24 leikjum. Hann hefur leikið 35 landsleiki fyrir Ísrael og skorað í þeim sjö mörk. Hann var í byrjunliði Ísraela sem mætti Íslandi á Laugardalsvelli fyrir rúmu ári síðan.

Solomon nýtti sér sömu reglu og Arnór Sigurðsson gerði þegar hann fór til Norrköping á lán, með því að frysta samning sinn hjá Shaktar Donetsk. Þessi möguleiki var í boði fyrir leikmenn hjá rússneskum og úkraínskum liðum vegna stríðsátakanna í Úkraínu.

Tottenham endaði í áttunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð og náði ekki sæti í Evrópukeppni. Félagið réði knattspyrnustjórann Ange Postecoglu til starfa að tímabilinu loknu en hann hafði verið við stjórnvölinn hjá Celtic í Skotlandi síðustu árin.

Þrátt fyrir að hafa styrkt liðið á síðustu vikum er stærsta áskorun Tottenham að reyna að halda fyrirliðanum Harry Kane hjá liðinu en hann hefur verið orðaður við ýmis félög síðustu vikur. Þá hefur Tottenham hafnað tveimur tilboðum frá þýsku meisturunum í Bayern Munchen í Kane.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×