Enski boltinn

United gæti keypt sex nýja leik­menn ef Al Thani kaupir liðið

Smári Jökull Jónsson skrifar
Erik Ten Hag gæti fengið meiri pening til að versla.
Erik Ten Hag gæti fengið meiri pening til að versla. Vísir/Getty

Ef Sjeik Jassim bin Hamad Al Thani nær að ganga frá kaupum á Manchester United fyrir lok félagaskiptagluggans gæti það þýtt að liðið kaupir sex nýja leikmenn í leikmannahópinn. 

Daily Mail greinir frá málinu en þar segir að ef Glazer fjölskyldan nær að ganga frá sölu félagsins fljótlega gæti það þýtt að Erik Ten Hag fær að versla þá leikmenn til liðsins sem hann vill fá.

Þá fengi United að minnsta kosti 50 milljónir punda í viðbót til leikmannakaupa en auk þess vonast félagið til að fá inn 100 milljónir punda fyrir sölu á leikmönnum. Harry Maguire, Scott McTominay, Fred, Donny van de Beek og Anthony Martial eru leikmenn sem gætu horfið á braut til að skapa rými fyrir nýja leikmenn.

United er komið langt í viðræðum við Inter vegna Andre Onana og nú, þegar David de Gea er farinn og Dean Henderson er líklegur til að yfirgefa Old Trafford, vill Ten Hag bæta við öðrum markverði. United hefur meðal annars verið orðað við hinn tvítuga Zion Suzuki í því samhengi en hann leikur með Urawa Red Diamonds í Japan.

Hefur tekið sinn tíma að klára söluna

Það er á hreinu að United ætlar að taka inn framherja. Hinn danski Rasmus Hojlund er á óskalista Ten Hag en hann kostar 50 milljónir punda. Knattspyrnustjórinn vill kaupa tvo framherja til að auka samkeppnina í fremstu víglínu.

Búið er að ganga frá kaupum á Mason Mount til að styrkja miðsvæðið en United er einnig á höttunum á eftir Sofyan Amrabat, 26 ára landsliðsmanni Marokkó sem leikur með Fiorentina.

Gangi salan á United eftir gætu félagaskiptaáætlanir Erik Ten Hag gengið eftir. Salan virðist samt ennþá vera í lausu lofti. Ákvörðunin liggur hjá Glazer fjölskyldunni og á meðan salan er ekki frágengin er óljóst hversu mikið Ten Hag fær að versla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×