Erlent

46 gráður á Ítalíu og varað við versnandi hitabylgju á norðurhveli jarðar

Eiður Þór Árnason skrifar
Þyrlur eru nýttar til að reyna að hafa hemil á umfangsmiklum skógareldum sem nú loga í Sviss.
Þyrlur eru nýttar til að reyna að hafa hemil á umfangsmiklum skógareldum sem nú loga í Sviss. Ap/Jean-Christophe Bott

Skæð hita­bylgja herjar á­fram á fólk víða um heim og virðist lítið lát vera á hitanum. Al­þjóða­veður­fræði­stofnunin varar við því að hita­bylgjan færist í aukana á norður­hveli jarðar í þessari viku með hærri nætur­hita og meiri hættu á hjarta­á­föllum og dauðs­föllum.

Gert er ráð fyrir að 46 stiga hiti mælist á ítölsku eyjunni Sardiníu síðar í dag og er varað við því að íbúar í vissum hlutum Ítalíu þurfi að þola ákafan hita í tíu daga til viðbótar.

Íbúar Spánar hafa glímt við samfelldar hitabylgjur að undanförnu og náði hiti 44 gráðum í suðurhluta landsins í gær. Á sama tíma hafa gróðureldar logað á spænsku eyjunni La Palma og á meginlandi Grikklands.

Ferðamenn keppast við að kæla sig niður í Róm, höfuðborg Ítalíu.Ap/Gregorio Borgia

Hvert hitametið á fætur öðru

„Hitastig í Norður-Ameríku, Asíu, Norður-Afríku og við Miðjarðarhafið nær yfir 40 gráður í fleiri daga í þessari viku á sama tíma og hitabylgjan færist í aukana,“ segir í yfirlýsingu frá Alþjóðaveðurfræðistofnuninni sem vísað er til í umfjöllun Breska ríkisútvarpsins. Stofnunin segir öfgafull veðurmynstur undirstrika mikilvægi þess að þjóðir heims grípi til aukinna aðgerða til að bregðast við loftslagskrísunni.

Meðallandhiti á heimsvísu hefur nú slegið fyrra hitamet fimmtán daga í röð. Það met féll í júlí í fyrra og því skammt stórra högga á milli. Rannsókn bendir til þess að 61 þúsund einstaklingar hafi látist í Evrópu á síðasta ári í tengslum við hitabylgju sem sló víða hitamet. Þá hafi 166 þúsund einstaklingar látist vegna hita í álfunni á árunum 1998 til 2017. 

Í Bandaríkjunum mældist hiti aftur 49 gráður á miðnætti í Dauðadalnum í Kaliforníu. Yfir hundrað slökkviliðsmenn berjast nú við skógarelda í suðurhluta Sviss sem kviknuðu við þorp í kantónunni Valais í gær og breiddist hratt út í nótt. Fyrr í dag var greint frá því að eldur logaði á hundrað hektara svæði.

Pete Buttigieg, samgönguráðherra Bandaríkjanna, hitti í gær Perry Hollyer, eiganda gistiheimilis í Vermont-ríki, sem er eyðilagt eftir að það flæddi í bænum Hardwick.Ap/Charles Krupa

Snjóaði í Suður-Afríku

Yfirvöld ríkja í Norður-Afríku hvetja fólk til að gera ráðstafanir til að verjast hitanum, á borð við að drekka mikinn vökva og forðast sólina. Hitastig náði 48 gráðum í Alsír og Marokkó í síðustu viku og hefur þar sjaldan mælst hærri. Yfirvöld í Alsír segja útlit fyrir að stingandi hiti muni halda áfram gera fólki lífið leitt í þessari viku.

Meira hefur verið um veðuröfgar á heimsvísu að undanförnu líkt og vísindamenn hafa lengi spáð í tengslum við loftslagsbreytingar og ekki einungis orðið vart við hitabylgjur. Í suðurhluta Afríku er nú kaldara veðurfar en alla jafna og í síðustu viku féll snjór í Jóhannesarborg í Suður-Afríku í fyrsta skipti í yfir tíu ár. Þá hefur víða borið á miklum flóðum, þar á meðal í Bandaríkjunum og Asíu. 


Tengdar fréttir

„Það hefur ekki enn liðið yfir mig“

Miklar hitabylgjur hafa haft áhrif víða í heiminum undanfarna daga. Höfuðborg Japans er ekki undanskilin slíku en mikill hiti hefur verið þar síðustu daga. Borghildur Gunnarsdóttir, sem stödd er í Tokyo, segir að hitinn sé svo mikill að Íslendingar í borginni hafi flúið heim til Íslands vegna hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×