Lífið

Velur Taylor Swift tónleika fram yfir kosningabaráttu

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Kristrún er mikill aðdáandi Taylor Swift og hefur verið það frá átján ára aldri. Aðeins eitt ár er á milli þeirra tveggja.
Kristrún er mikill aðdáandi Taylor Swift og hefur verið það frá átján ára aldri. Aðeins eitt ár er á milli þeirra tveggja. vísir

Svo gæti farið að Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar fari á Taylor Swift tónleika í miðri kosningabaráttu. Kosningar kæmu að minnsta kosti ekki í veg fyrir að hún færi á tónleika, svo mikill aðdáandi er hún. 

Þetta er á meðal þess sem kom fram í viðtali við Kristrúnu í Bakaríinu á Bylgjunni í morgun þar sem slegið var á létta strengi en Kristrún hefur lært meðal annars á píanó og harmonikku. 

„Ég ætlaði sem unglingur alltaf að gera eitthvað með þetta, svo áttaði ég mig á því að þetta væri kannski ekki mín sterkasta hlið. En ég held lagi,“ segir Kristrún.

„Ég kann einhverja hljóma og svona. Faðir minn lét mig læra á harmonikku, hann er Skagfirðingur og það hefur alltaf verið sungið mikið í mínum fjölskylduboðum, ég hélt reyndar að það væri þannig í öllum fjölskylduboðum. Maðurinn minn fékk svo bara áfall þegar hann mætti fyrst í fjölskylduboð og fékk afhenta söngbók.“

Kristrún var beðin um að velja lag sem væri lýsandi fyrir sjálfa sig. Eftir nokkra umhugsun segir Kristrún:

„Ég er náttúrulega mikill Taylor Swift aðdáandi. Ég elska kantrí tónlist. Fólki fannst þetta alltaf mjög hallærislægt en er farið að átta sig á því hérna á Íslandi að öll góð lög eru í grunninn kántri. Bó Halldórs, bestu plöturnar hans eru kántrílög með íslenskum texta. Bríet, sem dæmi, er núna komin í kántríið.“ 

Taylor Swift hafi verið sú fyrsta sem hafi flutt sig yfir í meginstraums-tónlist, segir Kristrún. „Ég er búin að hlusta á Taylor Swift frá því ég var átján ára.“

Aðeins eitt ár er á milli þeirra tveggja, Taylor og Kristrúnar. Taylor er fædd árið 1989 en Kristrún 1988. Taylor hóf tónlistarferilinn árið 2005, þá 17 ára gömul.

„Ég get upplýst um það núna, í beinni útsendingu, að ég fékk miða á Taylor Swift tónleika á yfirstandandi tónleikaferðalag. Ég sat yfir tölvunni minni í fjóra klukkutíma í sumar.“

Miðasölurisinn Ticketmaster bað aðdáendur Swift einmitt afsökunar vegna hruns sem varð á síðu fyrirtækisins þegar miðasalan hófst. Dæmi voru um að miðar hafi selst á 2,5-9 milljónir króna í endursölu.

„Ég ætla á þessa tónleika. Miðasalan var í júlí þegar var svolítið mikil læti hjá ríkisstjórninni en ég var að vonast til að fá miða um sumarið. Ég hugsaði: „æ ef það verða kosningar næsta vor, þá missi ég af þessum tónleikum. Þannig ég hafði miklar áhyggjur af því að ég myndi enda á því að þurfa að kaupa miða einhverja helgi þegar það eru kosningar.

Ég á kannski ekki að segja þetta opinberlega en mig langar alveg ótrúlega að fara, þetta er bara algjör draumur hjá mér. Ég ræddi þetta fram og til baka við manninn minn. Svo komst ég að í Stokkhólmi hvítasunnuhelgina næstu. Ríkisstjórnin veit núna að þetta er mjög slæm helgi fyrir mig til að fara í kosningar. Ég mun finna leið til að gera þetta, breyti þá helgarferð í dagsferð.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.