Erlent

Stubb stefnir á for­setann

Atli Ísleifsson skrifar
Alexander Stubb var forsætisráðherra landsins á árunum 2014 til 2015.
Alexander Stubb var forsætisráðherra landsins á árunum 2014 til 2015. EPA

Alexander Stubb, fyrrverandi forsætisráðherra Finnlands, hefur tilkynnt að hann muni bjóða sig fram sem forseti landsins á næsta ári.

Stubb greindi frá því á fréttamannafundi í morgun þar sem hann sagðist vera reiðubúinn að vera frambjóðandi hægriflokksins Þjóðarflokksins.

„Þegar föðurlandið kallar þá býður maður sig fram,“ sagði Stubb í morgun. Fréttirnar koma ekki á óvart eftir að Petteri Orpo, forsætisráðherra Finnlands og formaður Þjóðarflokksins, greindi frá því fyrr í vikunni að flokkurinn myndi standa heilshugar á bakvið slíkt framboð Stubb.

Stubb var forsætisráðherra landsins á árunum 2014 til 2015 en gegndi á þingferli sínum einnig meðal annars embætti utanríkisráðherra og fjármálaráðherra.

Forsetakosningar fara fram í Finnlandi þann 28. janúar á næsta ári og ef enginn nær hreinum meirihluta verður önnur umferð tveimur vikum síðar. Nýr forseti mun svo taka við embættinu þann 1. mars.

Sauli Ninistöö Finnlandsforseti tók við embættinu árið 2012 og var endurkjörinn 2018. Forsetar í Finnlandi mega að hámarki sitja tvö kjörtímabil, en forsetakosningar fara fram í landinu á sex ára fresti.

Finnlandsforseti er með talsverð völd þegar kemur að utanríkis- og varnarmálum, en völd forseta hafa á síðustu árum færst í auknum málum yfir til ríkisstjórnarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×